William Stephenson
Sir William Samuel Stephenson (23. janúar 1897 – 31. janúar 1989) var Kanadamaður af íslenskum ættum, kaupsýslumaður, hugvitsmaður og njósnari og stýrði starfsemi bresku leyniþjónustunnar í Ameríku í seinni heimsstyrjöld. Hann er talinn ein helsta fyrirmynd rithöfundarins Ians Fleming að njósnaranum James Bond, en Stephenson var lærifaðir Flemings í stríðinu og þeir urðu miklir vinir.
Þeir sem þekktu Stepehenson kölluðu hann oftast Little Bill en eftir stríð varð hann þekktur undir dulnefninu sem sagt er að hann hafi borið, Intrepid, og einnig er hann oft kallaður Þögli Kanadamaðurinn (The Quiet Canadian).
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Stephenson bar upphaflega nafnið William Samuel Clouston Stanger og var fæddur í Winnipeg í Manitoba. Faðir hans, William Hunter Stanger, var frá Orkneyjum en móðirin, Sarah Gudfinna Johnston (Guðfinna Jónsdóttir) var íslensk en ekki er vitað um ætt hennar eða hvaðan af Íslandi hún var. Faðirinn lést um 1901 og móðirin treysti sér ekki til að sjá fyrir öllum börnum sínum svo að William var tekinn í fóstur af Vigfúsi Stefánssyni og Kristínu Guðlaugsdóttur, sem ættuð voru af Snæfellsnesi, og fékk nafn þeirra, Stephenson. Hann gekk í kanadíska herinn 1915 og var sendur á vígvellina í Evrópu. Þar særðist hann og ákvað þá að læra að fljúga og láta flytja sig yfir í flugherinn. Hann þótti standa sig frábærlega en var sjálfur skotinn niður og tekinn til fanga 28. júlí 1918. Honum tókst þó að flýja og komast aftur yfir víglínuna og samtals er hann sagður hafa skotið niður 26 óvinaflugvélar og loftför.
Stephenson sneri aftur til Winnipeg eftir stríðið og kom þar upp fyrirtæki með vini sínum en það gekk illa og hann ákvað að freista gæfunnar í Englandi. Þar tókst honum að afla einkaleyfa fyrir hluti og aðferðir sem hann hafði fundið upp, þar á meðal aðferð til að senda ljósmyndir með loftskeytum, og varð brátt milljónamæringur. Árið 1924 giftist hann bandarískri konu, Mary French Simmons, sem var erfingi tóbaksframleiðanda. Hann fjárfesti einnig í ýmsum fyrirtækjum og varð umsvifamikill kaupsýslumaður með dýrmæt sambönd víða um heim.
Styrjaldarárin
[breyta | breyta frumkóða]Í viðskiptaferðum sínum til Þýskalands varð hann áskynja um ýmislegt sem snerti endurhervæðingu Þjóðverja, sem var brot á Versalasamningnum frá 1919, og kom þeim áleiðis til Winstons Churchill, en þeir voru kunningjar. Stephenson hélt áfram að fara viðskiptaferðir til Þýskalands og aflaði margvíslegra upplýsinga um stríðsundirbúning nasista. Þegar Churchill varð forsætisráðherra vorið 1940 gerði hann Stephenson að yfirmanni BSC, stofnunar sem annaðist alla njósna- og áróðursstarfsemi Breta í Norður- og Suður-Ameríku. Höfuðstöðvarnar voru i New York en starfsemin teygði sig víða og í Ontario í Kanada kom Stephenson á fót háleynilegri þjálfunar- og samskiptamiðstöð. Einn nemenda hans þar var að líkindum Ian Fleming en alls hlutu um 2000 breskir, kanadískir og bandarískir njósnarar þar þjálfun, þar á meðal fimm verðandi forstjórar CIA.
Stephenson varð jafnframt sérlegur fulltrúi Churchills gagnvart Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta og varð brátt einn af ráðgjöfum Roosevelts. Stephenson var einn af fáum sem fengu að sjá óritskoðaðar útgáfur af þýskum Enigma-dulmálsskeytum sem Bretar höfðu ráðið í dulmálsmiðstöðinni í Bletchley Park og Churchill treysti honum til að meta hvaða upplýsingar ætti að láta ganga áfram til breskra og kanadískra stjórnvalda.
Bandaríkjamenn höfðu á þessum tíma enga eiginlega leyniþjónustu þótt FBI væri aðeins farin að teygja starfsemi sín út fyrir landamærin. Að tillögu Stephensons gerði Roosevelt góðvin hans, William J. Donovan, að yfirmanni allrar njósnastarfsemi Bandaríkjanna og kom hann á fót stofnun sem var undanfari CIA; því má segja að Stephenson hafi átt þátt í stofnun CIA og stofnunin sótti þekkingu og aðferðir til Stephensons og BSC fyrst í stað.
Að stríðinu loknu var Stephenson aðlaður og Churchill skrifaði á meðmælabréfið: „Þessi er mér hjartfólginn.“ Stephenson fékk einnig orðu frá Bandaríkjaforseta, Verðleikaorðunni (Medal for Merit), sem var æðsta borgaralega heiðursmerkið sem þá var veitt, og mun hafa verið fyrsti maðurinn sem hún var veitt sem ekki var Bandaríkjamaður. Stephenson vann launalaust og er sagður hafa greitt starfsemi stofnunarinnar sem hann stýrði að nokkru leyti úr eigin vasa.
Ævilok
[breyta | breyta frumkóða]Stephenson settist í helgan stein nokkru eftir stríðið og bjó á Jamaíku, þar sem hann var nágranni Ians Fleming, og Bermúda, þar sem hann dó rúmlega níræður. Um hann hafa verið skrifaðar nokkrar bækur, þar á meðal The Quiet Canadian (1962), sem komið hefur út á íslensku undir nafninu Dularfulli Kanadamaðurinn, A Man Called Intrepid (1976) og The True Intrepid (1998). Tvær fyrrnefndu bækurnar hafa þó verið gagnrýndar fyrir að gera of mikið úr hlut Stephensons.
Árið 1979 var gerð sjónvarpsmynd byggð á bókinni A Man Called Intrepid og lék David Niven hlutverk Stevensons í henni. Í fæðingarborg hans, Winnipeg, hafa gata og almenningsbókasafn verið látin heita eftir honum og einnig hefur honum verið reist stytta þar.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „William Stephenson“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. mars 2012.
- „Dularfulli Kanadamaðurinn. 1. grein. Morgunblaðið, 27. maí 1980“.
- „Dularfulli Kanadamaðurinn. 2. grein. Morgunblaðið, 4. apríl 1980“.
- „Dularfulli Kanadamaðurinn. 3. grein. Morgunblaðið, 18. maí 1980“.
- „Dularfulli Kanadamaðurinn. 4. grein. Morgunblaðið, 31. maí 1980“.
- „Sir William Stephenson. Á www.manitoba-eh.ca, skoðað 31. mars 2012“.
- „A Master Spy. The Emigration from Iceland to North America. Newsletter Nr. 62, skoðað 31. mars 2012“.
- „The Intrepid Society. Heimasíða félags sem stofnað var í minningu Stephensons“.