Fara í innihald

Thalía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Thalía er leikfélag Skólafélags Menntaskólans við Sund sem stofnað var árið 1973. Mörg margbreytileg leikrit hafa verið sýnd, auk þess hafa mörg leikrit verið samin sérstaklega fyrir hópinn. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur því fyrsta leikritið sem frumsýnt var, var leikritið Afmælisveislan eftir Harold Pinter í þýðingu Sverris Hólmarssonar þáverandi enskukennara skólans, en meðal leikenda var Rúnar Guðbrandsson,síðar leikari og leikstjóri en framkvæmdastjóri sýningarinnar var formaður Thalíu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Eftir þetta leikrit hafa verið sýnd mörg önnur sígild leikrit þar á meðal Lýsistrata eftir Aristófanes og Mutter Courage eftir Berthold Brecht og Kirsubergjagarðurinn eftir Tjeckov. Á dagskrá leiklistasviðisins hafa oftast verið leikrit af erlendum uppruna, en þó hafa nokkur íslensk verk verið sett upp af leikfélagi MS, s.s. Galdra–Loftur eftir Jóhann Sigurjónsson.

Af kennurum skólans hafði Sverrir Hólmarson, sem starfaði við skólann um árabil, mest afskipti af þessum þætti skólalífsins og að auki hafa margir leiðbeinendur og leikstjórar komið til við sögu leiklistasviðs MS.

Veturinn 1977-1978 er skv. leikskrá 2. leikár Thalíu, leiklistarsviðs MS. Nafnið Thalía kemur þá væntanlega fyrst fyrir þegar nafni skólans er breytt úr MT í MS haustið 1976. Á fyrsta og öðru leikári Thalíu var Gísli Rúnar Jónsson fenginn til að leikstýra hópnum. Fyrra árið (1976-77) var sett upp leikritið Sandkassinn eftir sænskan höfund, Kent Anderson. Ári síðar var settur upp skopleikur eftir þá Arnold og Bach sem heitir Stundum bannað og stundum ekki. Á þriðja ári voru Eðlisfræðingarnir eftir Dürrenmatt settir á svið í leikstjórn Þóris Steingrímssonar.Árið 1980-81 var starfsemin óvenju öflug en þá kom fyrrum nemandi og stofnfélagi Thalíu Rúnar Guðbrandsson leikstjóri ferskur til starfa eftir leiklistarnám erlendis og setti upp tvö verk Erpinghambúðirnar eftir Joe Orton sem hann og bekkjarfélagar hans höfðu þýtt undir handleiðslu Sverris Hólmarssonar á sínum tíma í M.T. og sína eigin þýðingu á Gum og Goo eftir Howard Brenton. Hann leikstýrði einnig gjörning Thalíu á Kjarvalsstöðum sem stóð í heilan dag. Rúnar leikstýrði síðar Woyzek eftir Georg Büchner hjá Thalíu (1992).

Árið 2006 sýndi Thalía leikritið Sódóma sem var byggt á kvikmyndinni Sódóma Reykjavík. Leikstjórar voru Hrefna Hallgrímsdóttir og Aino Freyr Järvelä.[1]

Leikritið árið 2007 hét Rómeó og Júlíus og var eftir þá Arnþór Gíslason, Karl Sigurðsson og Eyþór Snorrason ásamt Sigurjóni Kjartanssyni sem jafnframt leikstýrði verkinu.

Árið 2011 var sett upp leikritið Hairspray eftir Broadway söngleiknum Hairspray, í þýðingu Karls Sigurðssonar og Inga Björns Grétarssonar. Leikstjóri var Pétur Einarsson.[2]

  1. Morgunblaðið. „Leitað að sjónvarpsfjarstýringu“. timarit.is. Sótt 10. nóvember 2022.
  2. DV. „Hairspray sett á svið í Austurbæ“. timarit.is. Sótt 10. nóvember 2022.