Fara í innihald

Sullaveiki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sullaveiki (echinococcosis) er sjúkdómur af völdum bandorms[1]. Bandorms tegundin sem veldur sjúkdómnum var útrýmt á Íslandi á 20. öld og finnst því veikin ekki lengur á Íslandi[1]. Sullaveiki hrjáði Íslendinga í margar aldir og var um tíma einn af mannskæðustu sjúkdómumlandsins[2]

Líklega má kalla sullaveiki smitsjúkdóm þótt um fremur stóra "smitveru" sé að ræða, það er sullaveikibandormana ígulbandorm og sullafársbandorm.

Egg bandormsins er einkum að finna í saur grasæta á borð við kinda og kúa og berast eggin þaðan í meltingarfarveg manna (og hunda)[1]. Þar sem magasýrur gera ekki út af við eggin geta þau klakist út í magasafanum. Frá þörmunum borar ormurinn sig út og kemst í blóðrásina. Þaðan getur hann komist til ýmissa vefja, þó einkum í lifur, en getur einnig farið til lungna, nýrna og heila.

Þar sem ormurinn sest að myndar hann vökvafylltar blöðrur sem kallaðar voru sullur og af því dregur meinsemdin nafn sitt[1].

Sullaveiki á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Danskur læknir, Peter Schleisner, var sendur til Íslands árið 1847. Hann heyrði mikið talað um hve algeng lifrarveiki væri meðal fólks og fór að rannsaka hana og komst að því að veikin væri ekki eingöngu bundin við lifrina og væri framkölluð af sulli og komst að því að sjötti hver sjúklingur sem hann sá hafði þessa veiki. Niðurstöður hans vöktu mikla athygli í Danmörku en hann vissi þó ekki hvernig sullur kæmist inn í menn. Nokkru áður höfðu þýskir vísindamenn greint æviferil sulls. Danska heilbrigðisráðuneytið skrifaði í framhaldinu til Jóns Thorstensen landlæknis og hét verðlaunum þeim lækni sem gæti skrifað um sullaveikina og orsakir hennar. Landlæknir svaraði bréfinu og taldi enga íslenska lækna hafa aðgang að bókum og tækjum til þess verkefnis og sagði að hann teldi sjálfur að sullaveiki væri arfgeng. Nokkrum árum seinna sendi danska stjórnin Harald Krabbe til landsins til að rannsaka sullaveiki.[3]


Sullaveiki er fyrst getið í íslenskum heimildum um 1200.  Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir taldi um 1760 að sullaveiki væri einn af algengustu sjúkdómum meðan fólks á Íslandi. Áætlað hefur verið með hliðsjón af krufningarskýrslum og spurningalistum að um 1850 hafi 20-25% af íbúum Íslands verið smitaðir af sullaveiki en þá var ekki vitað hvernig sjúkdómurinn smitaðist. Árið 1849 taldi danski læknirinn P.A. Schleisner að einn af hverjum sex Íslendingum hefði sullaveiki. Árið 1862 rannsakaði danski læknirinn Harald Krabbe útbreiðslu á sullaveiki á Íslandi. Hann kom hingað til lands og komst að því að 28 af 100 hundum og flest af eldra sauðfé og kúm sem var slátrað voru með sull. Krabbe tókst að greina hvernig smit berst á milli hunda og annarra spendýra, og lýsa faraldursfræði sjúkdómsins og varð hann heimsþekktur fyrir þessar rannsóknir.[4] Jón Finsen taldi sullaveiki í sauðfé mun algengari en í mönnum og það væri fátítt að ekki væri sullur í gamalám. Breskur læknir A. Leared kynnti fyrir Íslendingum orsakir sullaveiki árið 1863 og hvernig mætti verjast henni. Gripið var til ýmissa ráðstafana til að útrýma sullaveiki og koma í veg fyrir útbreiðslu. Fyrirskipuð var árleg hundahreinsun og vel passað að hundar kæmust ekki í hráæti þar sem slátrað var. Ekki er talið að hundahreinsanir hafi haft mikil áhrif. [5]

Síðasta dauðsfallið af völdum sullaveiki á Íslandi varð árið 1960 en þá dó 23 ára kona sem hafði ígulsull í beinum. Síðasta sullaveika kindin fannst árið 1979 á sauðfjárbýli í Stöðvarfirði. Ígulsullir í mönnum geta vaxið áratugum saman og orðið mjög stórir. Stærsti sullur sem hefur greinst á Íslandi var 16 lítrar og þvermál var 50 sm. Níels Dungal fann þann sull í 51 ára konu við krufningu árið 1944.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Hvernig þróast sullaveiki í mönnum, frá því að smit berst frá hundi og þar til maðurinn deyr?“. Vísindavefurinn. Sótt 27. febrúar 2023.
  2. Steinunn Kristjánsdóttir. „Sullaveiki á 16. öld“. Glettingur.
  3. Erla Dóris Halldórsdóttir, Skorið á sull og einangrun rotnandi fólks, Sagnir - 1. tölublað (01.06.1995)
  4. Sigurdarson, Sigurdur (2010-10). „Dogs and echinococcosis in Iceland“. Acta Veterinaria Scandinavica (enska). 52 (S1): S6. doi:10.1186/1751-0147-52-S1-S6. ISSN 1751-0147. PMC 2994312.
  5. Páll Pálsson, Sigur yfir sullaveiki?, Læknablaðið, 10. tölublað (15.12.1989)
  6. Karl Skírnisson. “Bandormafána Landspendýra á Íslandi Að Fornu Og Nýju.” Náttúrufræðingurinn : vol. 87, no. (3-4), 2017, pp. 116–131.