Fara í innihald

Snorralaug í Reykholti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Snorralaug)
Snorralaug í Reykholti

Snorralaug í Reykholti eða Snorralaug er íslensk laug sem finna má í Reykholti. Snorralaug var ein af hinum 10 fyrstu friðlýstu fornminjunum á Íslandi. Hún er ein af þrettán laugum sem vitað er um að notaðar hafi verið til forna, og ein af fjórum sem enn eru nothæf.[1]

Talið er að laugin hafi verið hlaðin á 13. öld, og er hún kennd við Snorra Sturluson, en fyrstu heimildir um að það hafi verið laug í Reykholti eru frá dögum Snorra Sturlusonar (sem var uppi frá 1178-1241), en fyrirfinnast líka í Landnámabók og Sturlunga sögu. Tveir hverir finnast þar helstir, Skrifla og Dynkur. Var vatni veitt í Snorralaug úr Skriflu eftir um 120 m löngum neðanjarðarstokki og er baðlauga í Reykholti oft getið í gömlum heimildum. Snorralaug er með elstu mannvirkjum sem varðveist hafa hér á landi. Frá lauginn lágu jarðgöng til bæjarhúsa Snorra og hafa þau verið grafinn upp að hluta.

Hallbjörn son Odds frá Kiðjabergi Hallkelssonar, bróður Ketilbjarnar hins gamla, fékk Hallgerðar, dóttur Tungu-Odds. Þau voru með Oddi hinn fyrsta vetur; þar var Snæbjörn galti. Óástúðligt var með þeim hjónum.

Hallbjörn bjó för sína um vorið að fardögum; en er hann var að búnaði, fór Oddur frá húsi til laugar í Reykjaholt; þar voru sauðahús hans; vildi hann eigi vera við, er Hallbjörn færi, því að hann grunaði, hvort Hallgerður mundi fara vilja með honum.

 

En talið er að laug hafi verið á Reykvöllum frá árinu 960 eða fyrr á grundvelli Landnámu en þar segir frá því að Tungu-Oddur, sonur Önundar breiðskeggs á Breiðabólstað fór „frá húsi til laugar í Reykjaholt; þar voru sauðahús hans;“[2]

Árið 2004 sýndi séra Geir Waage sóknarprestur í Reykholtskirkju norsku krónprinshjónunum frá Reykholti og sýndi þeim ásamt öðrum stöðum Snorralaug. [3]

Laugin er u.þ.b. 4 metrar í þvermál; og þar sem botn laugarinnar er ójafn er hún misdjúp, en dýptin er breytileg á milli 0.70 til 1 metra djúp. Þrep liggja niður í laugina, og er hlaðin úr tilhöggnu hveragrjót. Fyrir tilstilli fornleifauppgraftar hefur það verið leitt í ljós að tvær rennur veittu heitu vatni í laugina úr hverinum Skriflu sem hefur nú verið eyðilögð.

Á barmi aðrennslisins má sjá fangamerkið V.Th. 1858. á steini og er það fangamark Sr. Vernharðs Þorkelssonar sem lét gera við laugina það ár.

Lauginni er fyrst lýst í riti frá circa. 1724 eftir Páls Vídalíns („Um fornyrði Jónsbókar“).

  1. Gangverk Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine- fréttabréf Verkís hf á bls. 4 „Landnámsöld“
  2. Landnámabók (Sturlubók), 51. kafli.
  3. mbl.is: Norsku krónprinshjónin fræddust um Snorra Sturluson
  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, S-T. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.
Myndir: