Fara í innihald

Sennheiser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sennheiser e845s hljóðnemi.

Sennheiser electronic GmbH & Co. KG er þýskt fyrirtæki stofnað árið 1945 sem framleiðir hljóðnema, heyrnartól og annan hljóðbúnað bæði fyrir almenning og atvinnumenn. Höfuðstöðvar Sennheiser eru í Wedemark í Þýskalandi (skammt frá Hannover) en höfuðstöðvar fyrirtækisins í Bandaríkjunum eru í Old Lyme í Connecticut.

Fyrirtækið er í eigu Sennheiser-fjölskyldunnar.

Saga Sennheiser

[breyta | breyta frumkóða]
Sennheiser HD280 heyrnatól.
Sennheiser heyrnartól MX400ii
Sennheiser PMX 60

Fritz Sennheiser og sjö verkfræðingar við háskólann í Hannover stofnuðu Sennheiser 1. júní árið 1945, fáeinum vikum eftir að stríðinu lauk í Evrópu, á rannsóknarstofu sem nefndist Labor W (nefnd eftir þorpinu Wennebostel, þangað sem hún hafði verið flutt sökum stríðsins). Fyrsta varan sem fyrirtækið þróaði var voltmælir. Labor W hóf framleiðslu á hljóðnemum árið 1946.

Árið 1955 störfuðu hjá fyrirtækinu 250 manns. Nafni Labor W var breytt í Sennheiser electronic árið 1958. Fyrirtækið var gert að einkahlutafélagi (KG) árið 1973. Framleiðsla á þráðlausum hljóðnemum hófst árið 1982. Sama ár tók Jörg Sennheiser við stjórn fyrirtækisins af föður sínum Fritz Sennheiser.

Fyrirtækið

[breyta | breyta frumkóða]

Hjá fyrirtækinu starfa nú um 1670 starfsmenn, um 60% þeirra í Þýskalandi. Sennheiser rekur verksmiðjur í Burgdorf í Þýskalandi, Tullamore á Írlandi (frá 1990) og Albuquerque í New Mexico í Bandaríkjunum (frá 1991). Árið 2003 tóku Sennheiser electronic og William Demant Holding Group höndum saman um stofnun Sennheiser Communications A/S í Danmörku með það að markmiði að þróa og framleiða fjarskiptatæki.

Þróunarstarf Sennheiser er að mestu unnið í Þýskalandi og Palo Alto í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Fyrirtækið rekur verslanir á Bretlandi, í Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Danmörku, Indlandi, Singapúr, Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum auk Þýskalands.

Meðal dótturfyrirtækja eru Georg Neumann GmbH, sem framleiðir hljóðnema, og Klein Hummel, sem framleiðir hátalara og annan hljóðbúnað fyrir fyrirtæki.

Velta fyrirtækisins árið 2006 nam 300 milljónum evra.