Fara í innihald

Sagan um Kark

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sagan um Kark (danska: Historien om Quark) er fjórða bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1987. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Bókin, sem og framhaldssagan Förin til Útgarða-Loka, fylgja í meginatriðum teiknimyndinni Valhalla frá árinu 1986.

Aðdragandi

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir útgáfu Veðmáls Óðins hófu höfundar Goðheima-sagnanna þegar að undirbúa næsta ævintýri. Þeir hugðust endurtaka leikinn frá fyrri bók og byggja ekki á einni tiltekinni goðsögu, heldur semja sjálfstætt ævintýri með vísunum í ýmis atriði úr norrænni goðafræði. Þá þegar var ætlunin að láta ævintýrið hverfast um hrekkjótta jötnastrákinn Kark, sem brugðið hafði fyrir í sögunni Hamarsheimt. Öfugt við aðrar söguhetjur Goðheima var Karkur að öllu leyti tilbúin persóna án nokkurra vísana í goðaheiminn.

Vinna við hina nýju sögu var skammt á veg komin þegar ákveðið var að framleiða teiknimynd í fullri lengd, byggða á söguveröld Goðheima. Næstu misserin helguðu höfundarnir sig gerð myndarinnar og tók handritið miklum breytingum. Byggði sagan nú að stórum hluta á frásögninni af ferð Þórs til Útgarða-Loka. Myndin varð svo grunnurinn að tveimur næstu bókunum í sagnaflokknum sem út komu árin 1987 og 1989.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Loki situr að sumbli hjá nafna sínum Útgarða-Loka og lætur blekkjast til að taka með sér hrekkjalóminn Kark og reyna að siða hann til. Þegar í Bilskirni er komið gerir Karkur allt vitlaust og kemur öllum upp á móti sér. Með tímanum sýnir hann þó á sér mýkri hliðar og vinátta myndast milli hans og barnanna Röskvu og Þjálfa. Í bókarlok snýr Þór aftur úr ferðalagi og bregst illur við þegar hann uppgötvar að Karkur sé þar enn. Hann skipar Loka að koma honum aftur til síns heima, en í ljós kemur að Útgarða-Loki og jötnaher hans hefur engan hug á að fá óróabelginn aftur til sín.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Bókin fjallar nær einvörðungu um samskipti barnanna þriggja: Þjálfa, Röskvu og Karks. Hún sker sig því frá öðrum verkum í sagnaflokknum að því leyti að hún er að langmestu leyti án vísanna til norrænnar goðafræði.
  • Vinnan við teiknimyndina Valhalla hafði talsverð áhrif á teiknistíl Goðheima, sem varð teiknimyndalegri.
  • Ekki kunnu allir lesendur Goðheimabókanna að meta jötnastrákinn Kark, en hann mæltist vel fyrir hjá yngri lesendum og var hann gerður að aðalsöguhetju í sérstökum bókaflokki sem jafnframt bar nafn hans.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Sagan um Kark kom út hjá Iðunni árið 1988. Þýðandi var Bjarni Fr. Karlsson. Hún var endurútgefin árið 2013 með nýrri forsíðu.

  • Valhalla - Den samlede saga 2. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2447-6.