Fara í innihald

Paul Deschanel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Paul Deschanel
Forseti Frakklands
Í embætti
15. febrúar 1920 – 21. september 1920
ForsætisráðherraAlexandre Millerand
ForveriRaymond Poincaré
EftirmaðurAlexandre Millerand
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. febrúar 1855
Schaerbeek, Belgíu
Látinn28. apríl 1922 (67 ára) París, Frakklandi
StjórnmálaflokkurAlliance démocratique, AD
MakiGermaine Deschanel
TrúarbrögðKaþólskur
BörnRenée Deschanel, Jean Deschanel, Louis-Paul Deschanel
HáskóliParísarháskóli
Undirskrift

Paul Eugène Louis Deschanel (13. febrúar 1855 – 28. apríl 1922) var franskur stjórnmálamaður sem var forseti Frakklands frá 18. febrúar til 21. september árið 1920, en þá neyddist hann til að segja af sér af heilsufarsástæðum. Hann hafði áður verið forseti fulltrúadeildar franska þingsins frá 1898 til 1902 og frá 1912 til 1920. Eftir að Deschanel sagði af sér gekk hann aftur á franska þingið og sat þar til dauðadags. Deschanel var einnig rithöfundur og skildi eftir sig ýmis ritverk með samfélagshugleiðingum. Hann hlaut aðild að frönsku akademíunni árið 1899.

Deschanel vann forsetakjörið árið 1920 á móti Georges Clemenceau, sem hafði verið forsætisráðherra Frakklands í fyrri heimsstyrjöldinni, með mesta atkvæðamun í sögu lýðveldisins. Clemenceau hafði áður sigrað Deschanel í einvígi eftir að Deschanel sakaði hann um spillingu. Eftir að Deschanel sigraði kosningarnar á hann að hafa sagt Clemenceau: „Þér unnuð stríðið en við munum vinna friðinn.“

Sem forseti kom Deschanel fram á mjög sérviskulegan hátt og misbauð mörgum með hátterni sínu. Þegar mannfjöldi í Nice kastaði blómum til hans í apríl 1920 tíndi Deschanel þau upp úr leðjunni og kastaði þeim aftur í fólkið.[1][2] Í næsta mánuði datt Deschanel forseti út um glugga á lestarvagni á leið frá Lyon til Montbrison klæddur náttfötunum einum saman.[3] Hann ráfaði um þar til járnbrautarverkamaður fann hann og kom honum til byggða.

Deschanel komst einnig upp á kant við bandaríska hattagerðarmenn þegar hann neitaði að leyfa konu sinni að bera 5000 dollara hatt sem forsetahjónin höfðu fengið að gjöf frá Bandaríkjunum. Hann gaf upp fjórtán ástæður fyrir því að þiggja ekki gjöfina, þ.á.m. að París væri vagga tískunnar og það hefði slæm áhrif ef forsetafrúin bæri hatt frá Bandaríkjunum; að Bandaríkin hefðu engan smekk fyrir list og að þau hefðu reynst Frakklandi illa í viðskiptum.[4]

Eftir lestaratvikið fóru ýmsar gróusögur á kreik um meinta geðbilun forsetans, þ. á m. um að hann hefði baðað sig úti í tjörn með hópi af öndum eða undirritað opinber skjöl með nafni Napóleons og Vercingetorix. Þessar sögur virðast mestmegnis hafa verið skáldaðar af andstæðingum Deschanel.[5] Engu að síður hafði traust forsetans beðið slíkan hnekki að þrýst var á hann að segja af sér, sem hann gerði loks þann 21. september. Hann eyddi næstu þremur mánuðum á heilsuhæli.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Adrien, Dansette, Histoire des présidents de la République : de Louis-Napoléon-Bonaparte à Vincent Auriol Geymt 3 mars 2016 í Wayback Machine, Amiot-Dumont, París, 1953, bls. 91.
  2. Battagion, Victor, Ridicules ! Les dossiers inavoués des grands personnages de l'Histoire, First, París, 2013, bls. 76.
  3. 23 mai 1920. Le président Deschanel chute sur la voie en ouvrant la fenêtre de son compartiment, Le Point, 23. maí 2013.
  4. 5000 dala hattur ekki þeginn, Alþýðublaðið, 156. tölublað (12.07.1920), bls. 3.
  5. Le pathétique accident de Paul Deschanel, Étalestaculture.fr, 4. desember 2015.


Fyrirrennari
Raymond Poincaré
Forseti Frakklands
15. febrúar 192021. september 1920
Eftirmaður
Alexandre Millerand