Fara í innihald

Papey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Papey séð úr lofti
Frá Papey

Papey er stór eyja við austurströnd Íslands og tilheyrir Múlaþingi. Eyjan er 2,0 ferkílómetrar að stærð, og er hæsti punktur hennar í um 58 metrar yfir sjávarmáli.

Búið var í Papey frá landnámsöld og fram til ársins 1966 og þar er enn íbúðarhús, viti og kirkja. Stór lundabyggð er í Papey. Í eynni hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð síðan 1998.

Í Landnámabókum er Papa getið, og að fleiri hlutir hafi fundist eftir þá "þeir, er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn". Ennfremur er þess getið, að gripir þessir hafi fundist í "Papey austur og í Papýli"

Einnig er þess getið í Landnámu, í tengslum við vetursetu Ingólfs Arnarsonar á Geithellum í Álftafirði, að um vorið hafi konur gengið upp í fjall og séð reyk úti í Papey. Þegar farið var að athuga um reykinn, voru þar papar fyrir.

Papey er því einn þeirra staða sem talið er að papar hafi búið. Í Papey má finna mörg örnefni sem benda til veru papa þar, s.s. Papatættur og Írskuhólar. Engar minjar hafa þó fundist í eynni sem benda til veru papa þar, þrátt fyrir að nokkuð hafi verið leitað að ummerkjum um veru þeirra í Papey og nágrenni Djúpavogs. Dr. Kristján Eldjárn var við rannsóknir í Papey, einkum á árunum milli 1970 og 1980, án þess að finna ummerki um veru Papa þar. Hins vegar fann hann rústir bæja í Papey sem ber öll merki norrænna manna sem þar munu hafa verið á landnámsöld.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.