Nýja ráðhúsið í München
Nýja ráðhúsið í München (Neues Rathaus) er geysifögur bygging í miðborg München í Þýskalandi. Það er aðsetur borgarráðs og borgarstjóra.
Byggingasaga
[breyta | breyta frumkóða]Þegar mönnum fannst gamla ráðhúið í München orðið of lítið til að anna skrifstofuplássi á 19. öld var ákveðið að ráðast í að reisa nýtt ráðhús. Efnt var til samkeppni um nýbyggingu og var sigurtillagan bygging í nýgotneskum stíl. Framkvæmdir hófust 1867 við Maríutorgið (Marienplatz) í hjarta borgarinnar, aðeins örfáa metra frá gamla ráðhúsinu. Þegar húsið var fullreist 1874 reyndist það ekki geta rúmað allar nauðsynlegar skrifstofur. Því var ákveðið að stækka húsið verulega og var því lokið 1893. 1899-1903 fengu húsin hina skrautlegu framhlið. Efniviður byggingarinnar er tígulsteinn og kalksteinn með skeljum. Kalkið gefur byggingunni nokkuð ljóst yfirbragð. Í ráðhúsinu eru um 400 skrifstofur og eru þær notaðar af borgarstjóra og borgarstjórn München. Í kjallaranum er stórt veitingahús, eins og títt er í þýskum ráðhúsum. Þótt húsið skemmdist ekki að ráði í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari, voru þó gerðar endurbætur á því eftir stríð, t.d. bætt við einni hæð. Í ráðhúsinu fara yfirleitt fram heiðranir íþróttamanna og liða frá München.
Turninn
[breyta | breyta frumkóða]Turn ráðhússins er 85 metra hár. Í honum er klukknaspil með 43 bjöllum. Það er fimmta stærsta klukknaspil Evrópu og var tekið í notkun 1908. Spilið er í útskoti úr blýi og er á tveimur stórum hjólum. Efra hjólið sýnir riddaraleik sem fram fór 1568 í brúðkaupi hertogans Vilhjálms V og Renötu frá Lorraine (Lothringen). Á neðra hjólinu eru fígúrur sem sýna dans (Schäfflertanz) sem uppruninn er í München. Á sumrin fer klukknaspilið þrisvar fram, á veturna tvisvar daglega. Á kvöldin fer auk þess lítið klukknaspil fram með næturverði sem spásserar með lensuna sína.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Neues Rathaus (München)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.