Listasaga
Listasaga er saga sjónlista frá elstu dæmum um forsögulega list til okkar tíma. Hefðbundin listasaga leggur áherslu á fagurfræðileg einkenni sjónlista, aðgreind frá hagnýtum tilgangi listmuna, þótt þetta tvennt fari saman lengst af í listasögunni. Listasagan fjallar um listsköpun á ýmsu formi, eins og skreytilist, arkitektúr, ljósmyndun, kvikmyndagerð, prentlist, vídeólist og stafræna list.
Hefðbundin listasaga er gjarnan rakin eftir röð meistaraverka frá ólíkum tímabilum og menningarsvæðum með áherslu á þróun stílviðmiða og listrænna viðhorfa. Listasagan fjallar bæði um hámenningarlist og alþýðulist, en alltaf með áherslu á fagurfræðileg einkenni. Elstu forngripir sem hægt er með vissu að tala um sem „list“ eru þannig um 50.000 ára gamlir.