Fara í innihald

Lennart Torstenson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lennart Torstenson

Lennart Torstenson (ritaði sjálfur Linnardt Torstenson; 17. ágúst 16037. apríl 1651) greifi af Ortala var einn af frægustu herforingjum Svía í Þrjátíu ára stríðinu.

Foreldrar hans hröktust í útlegð við valdatöku Karls hertoga og Torstenson var alinn upp hjá skyldmennum. Fimmtán ára varð hann herbergisþjónn Gústafs 2. Adolfs og fylgdi honum á herförum hans. 1626 var hann merkisberi í sænska hernum og tók þátt í orrustunni við Wallhof. 1628 varð hann yfirliðþjálfi í herdeild Gustavs Horn og fékk sína eigin herdeild 1629. Hann varð ofursti 1630 og settur yfir stórskotalið sem var lykilþáttur í herförum Svía í Þýskalandi. 1632 var hann síðan skipaður „hershöfðingi stórskotaliðsins“ en sama ár var hann tekinn til fanga. Hann var í haldi í Ingolstadt en sleppt við fangaskipti ári síðar.

1634 var hann skipaður „ríkisbirgðameistari“ með ábyrgð á birgðaflutningum til herdeildanna. Þegar Johan Banér lést var Torstenson skipaður í hans stað. 1641 varð hann því yfirhershöfðingi sænsku herjanna í Þýskalandi og landstjóri í Sænsku Pommern. Sjálfur var hann mótfallinn því að taka við stöðunni þar sem hann þjáðist af veikindum eftir fangavistina og gat því illa setið hest auk þess sem sænski herinn var á þeim tíma mest skipaður málaliðum sem voru erfiðir viðfangs. Þrátt fyrir það leiddi hann vel heppnaða herför í gegnum Brandenburg og Silesíu inn í Mæri þar sem herinn tók borgina Olmütz. Í annarri orrustunni við Breitenfeld 23. október 1643 gersigraði hann her keisarans en skömmu eftir það var honum skipað að ráðast með allan herinn inn á Jótland í stríði sem síðan hefur verið kennt við hann. Hraði herfararinnar kom Dönum algerlega í opna skjöldu og þeir komu engum vörnum við. Deild úr her keisarans undir stjórn Matthias Gallas reyndi að loka hann inni á Jótlandi en tókst það ekki og Torstenson hélt sama ár í aðra herför gegnum Þýskaland og vann afgerandi sigur á keisarahernum í orrustunni við Jankov í Bæheimi. Þar stöðvaðist herförin vegna sjúkdóma og hann hélt aftur til Saxlands með herinn.

1646 lét hann af stjórn hersins vegna krankleika og Carl Gustaf Wrangel tók við. Kristín Svíadrottning heiðraði hann við heimkomuna og 1647 var hann gerður að fríherra yfir Virestad og greifa yfir Ortala. Frá 1648 til 1651 var Torstenson landstjóri yfir landamærahéruðunum Vestur-Gautlöndum, Dalslandi, Vermalandi og Hallandi.


Fyrirrennari:
Johan Banér
Yfirhershöfðingi sænska hersins
(1641 – 1646)
Eftirmaður:
Carl Gustaf Wrangel