Fara í innihald

Lára Hanna Einarsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lára Hanna Einarsdóttir (fædd 1. desember 1955) er þjóðþekktur bloggari og samfélagsrýnir. Hún starfar sem þýðandi, aðallega hjá Stöð 2 þar sem hún hefur starfað frá árinu 1987.

Bloggarinn Lára

[breyta | breyta frumkóða]

Lára Hanna byrjaði að blogga árið 2007, þá vegna baráttu gegn Hellisheiðarvirkjun þar sem hún birti viðtöl við sérfræðinga og annað fólk sem sagði frá þeim skaða sem virkjunin hefði á náttúruna á svæðinu. Í mars árið 2008 byrjaði hún að taka upp efni úr sjónvarpsþáttum og fréttum s.s. fréttir á RÚV og Stöð 2, Silfur Egils, Kastljós og Ísland í dag. [1]

„Þetta bar árangur, ég notaði pennann, ég hlekkjaði mig ekki við vinnuvélar“ sagði Lára Hanna í Silfri Egils 2. nóvember 2008.[2]

Ástæða þess að hún tók upp þetta efni var til að safna í gagnagrunn sem hægt væri að nota síðar til að rifja upp hvað stjórnmálafólk sagði og hvernig þau væri stundum í mótsögn við sjálft sig. Helgi Seljan fjölmiðlamaður lét hafa eftir sér um Láru Hönnu:

„Í mínum huga er Lára Hanna fyrst og fermst kraftmikill samfélagsrýnir og fjölmiðlamaður. Hún er betri en flest okkar í að finna, safna og setja í samhengi upplýsingar. Það sem hún gerir er mjög lofsvert þó svo að einhverjir fyrirlíta að það sem þeir segja og gera sé til í gagnagrunni. „[1]

Lára Hanna kom einnig að Búsáhaldabyltingunni en þar var hún ásamt Ragnheiði Gestsdóttur rithöfundi helstu ráðgjafar Harðar Torfasonar stofnanda, hugmyndasmiðs, framkvæmdaraðila og talsmanns Radda fólksins árið 2008 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi. En hann kallaði þær „vinstra og hægra eyrað sitt“. [3] Hörður þakkaði henni og fleirum síðar á blogginu sínu þar sem hann rifjar upp að fimm ár voru frá mótmælunum. [4]

Aðspurð í Silfri Egils um af hverju hún hefði verið að mótmæla sagðist hún hafa tekið þátt í mótmælunum sem hluti af almenningi og væri að mótmæla ýmsu. Í hennar augum skipti það ekki máli hver væri að skipuleggja mótmælin eða hverjir töluðu. Hún væri að mótmæla því sem væri að gerast í stjórnkerfinu og stjórn Seðlabankans sem væru búin að eiga gríðarlegan þátt í því koma okkur á þá vonarvöl sem við værum á og að þeir sátu áfram eins og ekkert hafi í skorist og þiggðu laun af skattpeningum þjóðarinnar. Einnig sagði hún að það væri kominn tími til að það verði alvöru lýðræði á Íslandi og það yrði hlustað á raddir þjóðarinnar. [2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 http://grapevine.is/mag/interview/2015/09/01/for-the-sake-of-memory-an-interview-with-arch-archivist-lara-hanna-einarsdottir/
  2. 2,0 2,1 https://www.youtube.com/watch?v=2DbNkigGPuM
  3. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=384109&pageId=6449168&lang=is&q=M�TM�LENDUR � H�R SAMAN
  4. http://www.hordurtorfa.com/frettir/today_exactly_five_years_ago_oct11_2008