Kindertransport
Kindertransport (á íslensku „barnaflutningar“) er björgun barna af gyðingaættum með því að flytja þau frá heimkynnum sínum í ríki þar sem þau voru óhult. Þessar ferðir barnahópa fóru fram síðustu níu mánuðina áður en seinni heimsstyrjöldin skall á. Um 10 þúsund börn komu til Bretlands frá Þýskalandi, Austurríki, Tékkóslóvakíu, Póllandi og fríríkinu Danzig. Börnunum var komið fyrir á fósturheimilum, gistiskýlum, skólum og bóndabæjum.
Þann 15. nóvember 1938, fimm dögum eftir Kristalsnótt í Þýskalandi og Austurríki kom sendinefnd frá breskum gyðingum og kvekurum til forsætisráðherra Bretlands og báðu um að bresk stjórnvöld veittu tímabundið landvistarleyfi fyrir börn af gyðingaættum sem kæmu til landsins án foreldra sinna. Breska þingið samþykkti sérstök lög um þessa flutninga.
Önnur lönd eins og Holland, Belgía, Frakkland, Danmörk og Noregur (áður en þau voru hernumin af Þýskalandi), Bandaríki Norður-Ameríku og Svíþjóð tóku einnig á móti flóttabörnum af gyðingaættum. Þannig komu 500 börn til Svíþjóðar.[1]Íslensk samtök friðarvina leituðu eftir samþykki íslenskra stjórnvalda til að taka við hópi flóttabarna árið 1938 en því erindi var synjað af Hermanni Jónassyni sem þá var forsætisráðherra. [2]