Ketill flatnefur
Ketill flatnefur Bjarnarson var hersir í Noregi á 9. öld. Faðir hans var Björn buna Grímsson, sonur Veðrar-Gríms hersis úr Sogni og er sagt í Landnámabók að frá Birni sé komið nær allt stórmenni á Íslandi. Kona Björns hét Vélaug og áttu þau tvo syni auk Ketils: Hrapp og Helga.
Kona Ketils var Yngvildur Ketilsdóttir og áttu þau synina Björn austræna og Helga bjólu og dæturnar Auði djúpúðgu og Þórunni hyrnu en einnig átti Ketill dótturina Jórunni manvitsbrekku. Haraldur hárfagri sendi að sögn Ketil til Suðureyja til að vinna þær aftur af Skotum og Írum, sem höfðu náð völdum í eyjunum á ný eftir að Haraldur hvarf heim til Noregs eftir frækilega herför. Ketill setti Björn son sinn yfir ríki sitt í Noregi og fór síðan og lagði undir sig allar Suðureyjar. Hann gerðist sjálfur höfðingi yfir eyjunum en galt Haraldi konungi enga skatta. Því reiddist konungur, tók undir sig eignir Ketils í Noregi og rak Björn son hans á brott.
Björn hélt þá til Suðureyja og síðan til Íslands, nam land á Snæfellsnesi og bjó í Bjarnarhöfn. Hann var eina barn Ketils sem ekki tók kristni. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi og bjó á Hofi. Þórunn hyrna giftist Helga magra Eyvindarsyni landnámsmanni í Eyjafirði og Auður hélt til Íslands eftir að Þorsteinn sonur hennar féll og faðir hennar andaðist og nam land í Dölum. Sonur Jórunnar, Ketill fíflski, hélt einnig til Íslands, nam land á Síðu og bjó í Kirkjubæ.