Fara í innihald

Hnefaleikar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hnefaleikar eða box er íþrótt þar sem tveir einstaklingar beita hnefunum þannig að þeir komi sem flestum löglegum höggum hvor á annan. Hnefaleikar fara fram í hnefaleikahring (oftast ásamt hringdómara) og keppendur nota hlífðarbúnað til að verja sig meiðslum eins og boxhanska, handvaf og tannskjól.

Ólympískir hnefaleikar fara fram á upphækkuðum ferhyrntum palli (hnefaleikahring), sem er girtur köðlum. Keppt er í þremur lotum í áhugamannaboxi en allt að 15 lotum í atvinnumannaboxi. Stig eru gefin fyrir hvert hreint högg og dómarar dæma yfirleitt þann sem skorar flest stig sigurinn. Undantekningar eru að unnt er að sigra með rothöggi, þ.e.a.s. andstæðingur er sleginn niður og stendur ekki upp innan 10 sekúndna, tæknilegu rothöggi, andstæðingur getur ekki haldið áfram vegna meiðsla eða þreytu og er þá dæmdur úr leik eða ef andstæðingur greiðir leikmanni högg neðan beltis og er þá umsvifalust dæmdur úr leik.

Mesta aðsókn á bardaga er 136 þúsund áhorfendur.

Hnefaleikar á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1916 kom til Íslands danskur maður, Wilhelm Jackobson hraðritari. Hann kunni hnefaleika og tók að veita mönnum tilsögn í hnefaleikum í leikfimisal Landakotsspítala. Sú kennsla stóð aðeins yfir í einn vetur, en nokkrir nemendur hans héldu áfram æfingum næsta ár undir stjórn Eiríks Bechs. Þetta var fyrsti vísir hnefaleika á Íslandi.

Íþróttafélagið Ármann var stórveldi á sviði hnefaleika á meðan þeir voru stundaðir hér á fyrri hluta 20. aldar. Iðkun hnefaleika hjá félaginu hófst árið 1926. Það ár fluttist hingað til lands Færeyingurinn Peter Wigelund og settist hér að. Hann lærði ungur skipasmíðar í Danmörku en æfði þá jafnframt hnefaleika og náði svo langt að komast í danska landsliðið. Wigelund gerðist þjálfari hjá Ármanni og hélt hnefaleikasýningu í Iðnó árið 1926, þar sem fram komu auk hans Sveinn G. Sveinsson, Ólafur Pálsson og Lárus Jónsson. Fyrsta opinbera hnefaleikamótið var svo haldið hér á landi þann 22. apríl 1928 í Gamla bíó,[1] og var það haldið á vegum Ármanns. Hringdómari var sjálfur Jóhannes á Borg, en utanhringsdómari Eiríkur Bech og Reidar Sörensen. Keppt var í fluguvigt, fjaðurvigt, veltivigt og millivigt (en þá nefndust þyngdarflokkarnir: Hvatþyngd (107-115 pund), veltiþyngd (115-122 pund), meðalþyngd (122-133 pund) og garpsþyngd (133-145 pund)).

Árið 1933 tók Íþróttasamband Íslands hnefaleika á stefnuskrá sína og voru þá hnefaleikareglurnar þýddar, staðfærðar og gefnar út. Fyrsta Íslandsmeistaramótið var haldið í júní 1936 á upphækkuðum palli á Melavelli við afar frumstæð skilyrði. Frægt hnefaleikamót fór fram í íþróttahúsinu Hálogalandi 1. júní 1945.[2] Þá áttust við Hrafn Jónsson, Ármanni og Thors R. Thors, ÍR og kepptu í þungavigt. Bardaginn stóð aðeins í eina mínútu og sextán sekúndur. Á þeim tíma sló Hrafn andstæðing sinn fjórum sinnum í gólfið.

Hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956. Um bannið var mikið deilt á sínum tíma.[3][4][5]

Samþykkt var á Alþingi 11. febrúar 2002 með 34 atkvæðum gegn 22 að leyfa ólympíska eða áhugamannahnefaleika en áfram eru bannaðir "almennir" hnefaleikar.

Hnefaleikafélög á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Hnefaleikafélag Reykjaness var stofnað árið 2001.

Hnefaleikafélagið ÆSIR var stofnað árið 2007 og er með aðstöðu sína í Hnefaleikastöðinni að Viðarhöfða 2, 110 Reykjavík.

Hnefaleikafélag Akraness var stofnað þann 28.febrúar árið 2008 og er með aðstöðu sína í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu, 300 Akranesi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Morgunblaðið 1928
  2. Morgunblaðið 1945
  3. Morgunblaðið 1956
  4. Morgunblaðið 1956
  5. Morgunblaðið 1956
  Þessi íþróttagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.