Fara í innihald

Guðrún Ögmundsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Guðrún Ögmundsdóttir (GÖg)
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
1999 2003  Reykjavík  Samfylking
2003 2007  Reykjavík n.  Samfylking
Borgarfulltrúi í Reykjavík
frá til    flokkur
1992 1994  Kvennalistinn
1994 1998  Reykjavíkurlistinn
2018 2019  Samfylking
Persónulegar upplýsingar
Fædd19. október 1950
Reykjavík, Íslandi
Látin31. desember 2019 (69 ára) Kópavogi, Íslandi
StjórnmálaflokkurSamfylkingin
MakiGísli Arnór Víkingsson
Börn2
Æviágrip á vef Alþingis

Guðrún Ögmundsdóttir (19. október 1950 - 31. desember 2019) var íslenskur félagsráðgjafi, borgarfulltrúi í Reykjavík og alþingismaður. Hún var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi árið 1999 og sat á þingi til ársins 2007.

Kjörforeldrar Guðrúnar voru hjónin Ögmundur Jónsson (1918-1971) vélstjóri og bifvélavirki og yfirverkstjóri hjá Vita- og hafnamálastofnun og Jóhanna J. Guðjónsdóttir (1918-1986). Móðir Guðrúnar var Hulda Valdimarsdóttir (1922-1981). Maður Guðrúnar var Gísli Arnór Víkingsson (f. 1956) sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og eignuðust þau tvö börn.

Nám og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Guðrún lauk námi í félagsfræði og félagsráðgjöf frá Roskilde Universitetscenter í Danmörku árið 1983. Hún stundaði framhaldsnám í fjölmiðlafræði við sama skóla 1983-1985 og lauk þaðan cand.comm-prófi árið 1985.

Hún sinnti ýmsum störfum áður en hún hóf nám og starfaði m.a. á dagskrárdeild Ríkisútvarpsins, sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu, var uppeldisfulltrúi við sérdeild Hlíðaskóla og starfaði á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Að námi loknu var hún starfsmaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) 1985-1988, verkefnisstjóri hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, starfaði hjá Styrktarfélagi vangefinna, var framkvæmdastjóri námskeiða fyrir aðstandendur fatlaðra barna og félagsmálafulltrúi hjá Sjálfsbjörgu. Yfirfélagsráðgjafi á kvennadeild Landspítala 1988-1994 og stundakennari við læknadeild og félagsvísindadeild Háskóla Íslands um tíma. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Kvennalistann frá 1992-1994 en var kjörin borgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann árið 1994 og var borgarfulltrúi til ársins 1998.[1] Hún starfaði sem deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 1998-1999 eða þar til hún var kosin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Guðrún sat á þingi til ársins 2007.[2] Árið 2007 hóf hún störf sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og gegndi því starfi til ársins 2010 er hún var ráðin á vegum dómsmálaráðuneytisins sem tengiliður ríkisins og þeirra einstaklinga sem vistaðir höfðu verið á vistheimilum á vegum hins opinbera sem börn og unglingar og sætt þar harðræði.[3]

Guðrún sat í stjórn UNICEF á Íslandi á árunum 2011-2018 þar af frá 2016-2018 sem stjórnarformaður.[4]

Árið 2018 var Guðrún kosin í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna. [5]

Halla Gunnarsdóttir skrifaði sögu Guðrúnar, Hjartað ræður för og kom hún út árið 2010.[6] Þann 17. júní 2019 var Guðrún sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Guðrún Ögmundsdóttir ekki í framboði“, Morgunblaðið, 23. október 1997 (skoðað 17. júní 2019)
  2. Alþingi, Æviágrip - Guðrún Ögmundsdóttir (skoðað 17. júní 2019)
  3. Visir.is, „Guðrún er tengiliður vegna vistheimila“, (skoðað 17. júní 2019)
  4. Unicef.is, - Minningarfrétt: Guðrún Ögmundardóttir[óvirkur tengill] (skoðað 2. janúar 2020)
  5. Reykjavik.is, „Borgarfulltrúar - Guðrún Ögmundsdóttir“ (skoðað 17. júní 2019)
  6. Forlagid.is, „Hjartað ræður för - Guðrún Ögmundsdóttir“, (skoðað 17. júní 2019)
  7. Visir.is, „Sextán hlutu fálkaorðuna á þjóðhátíðardaginn“ (skoðað 17. júní 2019)