Guðrún Ögmundsdóttir
Guðrún Ögmundsdóttir (GÖg) | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Alþingismaður | |||||||||||||
| |||||||||||||
Borgarfulltrúi í Reykjavík | |||||||||||||
| |||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||
Fædd | 19. október 1950 Reykjavík, Íslandi | ||||||||||||
Látin | 31. desember 2019 (69 ára) Kópavogi, Íslandi | ||||||||||||
Stjórnmálaflokkur | Samfylkingin | ||||||||||||
Maki | Gísli Arnór Víkingsson | ||||||||||||
Börn | 2 | ||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Guðrún Ögmundsdóttir (19. október 1950 - 31. desember 2019) var íslenskur félagsráðgjafi, borgarfulltrúi í Reykjavík og alþingismaður. Hún var kjörin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavíkurkjördæmi árið 1999 og sat á þingi til ársins 2007.
Kjörforeldrar Guðrúnar voru hjónin Ögmundur Jónsson (1918-1971) vélstjóri og bifvélavirki og yfirverkstjóri hjá Vita- og hafnamálastofnun og Jóhanna J. Guðjónsdóttir (1918-1986). Móðir Guðrúnar var Hulda Valdimarsdóttir (1922-1981). Maður Guðrúnar var Gísli Arnór Víkingsson (f. 1956) sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og eignuðust þau tvö börn.
Nám og störf
[breyta | breyta frumkóða]Guðrún lauk námi í félagsfræði og félagsráðgjöf frá Roskilde Universitetscenter í Danmörku árið 1983. Hún stundaði framhaldsnám í fjölmiðlafræði við sama skóla 1983-1985 og lauk þaðan cand.comm-prófi árið 1985.
Hún sinnti ýmsum störfum áður en hún hóf nám og starfaði m.a. á dagskrárdeild Ríkisútvarpsins, sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu, var uppeldisfulltrúi við sérdeild Hlíðaskóla og starfaði á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Að námi loknu var hún starfsmaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) 1985-1988, verkefnisstjóri hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, starfaði hjá Styrktarfélagi vangefinna, var framkvæmdastjóri námskeiða fyrir aðstandendur fatlaðra barna og félagsmálafulltrúi hjá Sjálfsbjörgu. Yfirfélagsráðgjafi á kvennadeild Landspítala 1988-1994 og stundakennari við læknadeild og félagsvísindadeild Háskóla Íslands um tíma. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Kvennalistann frá 1992-1994 en var kjörin borgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann árið 1994 og var borgarfulltrúi til ársins 1998.[1] Hún starfaði sem deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 1998-1999 eða þar til hún var kosin á þing fyrir Samfylkinguna í Reykjavík. Guðrún sat á þingi til ársins 2007.[2] Árið 2007 hóf hún störf sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og gegndi því starfi til ársins 2010 er hún var ráðin á vegum dómsmálaráðuneytisins sem tengiliður ríkisins og þeirra einstaklinga sem vistaðir höfðu verið á vistheimilum á vegum hins opinbera sem börn og unglingar og sætt þar harðræði.[3]
Guðrún sat í stjórn UNICEF á Íslandi á árunum 2011-2018 þar af frá 2016-2018 sem stjórnarformaður.[4]
Árið 2018 var Guðrún kosin í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna. [5]
Annað
[breyta | breyta frumkóða]Halla Gunnarsdóttir skrifaði sögu Guðrúnar, Hjartað ræður för og kom hún út árið 2010.[6] Þann 17. júní 2019 var Guðrún sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu mannúðar og jafnréttisbaráttu hinsegin fólks.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Guðrún Ögmundsdóttir ekki í framboði“, Morgunblaðið, 23. október 1997 (skoðað 17. júní 2019)
- ↑ Alþingi, Æviágrip - Guðrún Ögmundsdóttir (skoðað 17. júní 2019)
- ↑ Visir.is, „Guðrún er tengiliður vegna vistheimila“, (skoðað 17. júní 2019)
- ↑ Unicef.is, - Minningarfrétt: Guðrún Ögmundardóttir[óvirkur tengill] (skoðað 2. janúar 2020)
- ↑ Reykjavik.is, „Borgarfulltrúar - Guðrún Ögmundsdóttir“ (skoðað 17. júní 2019)
- ↑ Forlagid.is, „Hjartað ræður för - Guðrún Ögmundsdóttir“, (skoðað 17. júní 2019)
- ↑ Visir.is, „Sextán hlutu fálkaorðuna á þjóðhátíðardaginn“ (skoðað 17. júní 2019)