Fara í innihald

Golf á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Golf er vinsæl íþrótt á Íslandi. Um 24.200 kylfingar eru skráðir í 62 golfklúbba víðs vegar um landið árið 2023 sem var 4% aukning á milli ára. Þetta er aukning um 900 kylfinga frá fyrra ári. Miðað við höfðatölu eru 6,2% íslendinga skráðir í golfklúbb sem er hæsta hlutfall í Evrópu. Frá árinu 2020 hefur orðið hlutfallslega mesta fjölgun á kylfingum á Íslandi og Noregi ef öll evrópulöndin eru skoðuð. Börn og unglingar sem eru 18 ára og yngri eru að meðaltali 7% af öllum skráðum kylfingum í Evrópu. Ísland er eitt af þremur löndum í Evrópu með yfir 13% af öllum skráðum kylfingum sem börn og unglingar.[1]

Golfsamband Íslands er elsta og næst fjölmennasta íþróttasambandið innan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Íþróttin er ein af fáum þar sem áhugamenn jafnt og atvinnumenn eru sjálfir ábyrgir fyrir að fylgja reglum.

Saga golfs á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Saga golfs á Íslandi er ekki löng, en aðeins var byrjað að spila golf á landinu með skipulögðum hætti á 20. öld.

Fyrsti golfklúbburinn á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Golfklúbbur Reykjavíkur hét upphaflega Golfklúbbur Íslands og var stofnaður þann 14. desember 1934. Klúbburinn var þá eini golfklúbbur landsins og var nafninu svo breytt þegar fleiri golfklúbbar urðu til. Stofnun klúbbsins má rekja til Kaupmannahafnar en þar voru Íslendingar við nám og störf sem höfðu komist í kynni við golfíþróttina. Sumir þessara manna urðu seinna áberandi í íslensku þjóðfélagi, má þar meðal annars nefna Svein Björnsson fyrrverandi forseta Íslands, Gunnlaug Einarsson læknir, sem var formaður klúbbsins fyrstu árin og Valtýr Albertsson læknir.

Fyrsta Íslandsmótið í golfi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta Íslandsmótið í golfi fór fram 16. ágúst árið 1942 og voru alls 22 skráðir til keppni, langflestir þeirra sem voru með 12 eða minna í forgjöf. Ellefu þeirra voru úr Golfklúbbi Íslands, þrír frá Golfklúbbi Akureyrar og átta úr Golfklúbbi Vestmannaeyja.

Mótið einkenndist af vondu veðri, hávaðaroki og grenjandi rigningu. Völlurinn var forblautur, holurnar fullar af vatni og for í kringum sumar flatirnar, einkum þá sjöttu sem var nokkurn veginn á sama stað og síðar reis bygging sem hýsti fyrst Morgunblaðið og síðar Háskólann í Reykjavík.Gísli Ólafsson sigraði mótið og varð fyrsti Íslandsmeistarinn.

Golfvellir á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Alls eru 66 golfvellir á Íslandi og eru þeir staðsettir víðs vegar um landið. Um þrettán þeirra eru 18 holu vellir, einn er skilgreindur sem 12 holu völlur og um fjörtíu og níu vellir eru níu holur vellir. Auk þessara eru fjöldi 9 holu valla utan Golfsambandsins, flestir í tengslum við sumarhúsabyggðir. Klúbbar hafa verið stofnaðir við hvern golfvöll og eru sumir þeirra farnir að standa fyrir uppbyggingu á fleiri en einum velli, æfingaaðstöðu og/eða vetrarbrautum.

Golfvellirnir opna að meðaltali um 5. maí. Vellir við sjávarsíðuna á Suðurlandi opna fyrr eða um 15. apríl. Þeir loka líka örlítið seinna en meðaltalið, sem er um 15. október. Ef óvenjumikið frost er ákveðna daga að hausti er völlunum lokað tímabundið. Nokkrir vellir hafa komið upp sérstökum vetrarflötum og teigum á meðan flestir loka völlunum alveg. Fleiri og fleiri klúbbar bjóða uppá æfingateiga á gervigrasi eða golfherma fyrir vetraræfingar.

https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_8_golfvellir_-_umhir_a_og_vi_hald_ni_u/s/17150707

https://www.golf.is/

https://grgolf.is/

  1. [1]