Fara í innihald

George Wallace

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
George Wallace
George Wallace árið 1962
Fylkisstjóri Alabama
Í embætti
14. janúar 1963 – 16. janúar 1967
VararíkisstjóriJames Allen
ForveriJohn Patterson
EftirmaðurLurleen Wallace
Í embætti
18. janúar 1971 – 15. janúar 1979
VararíkisstjóriJere Beasley
ForveriAlbert Brewer
EftirmaðurFob James
Í embætti
17. janúar 1983 – 19. janúar 1987
VararíkisstjóriBill Baxley
ForveriFob James
EftirmaðurH. Guy Hunt
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. ágúst 1919
Clio, Alabama, Bandaríkjunum
Látinn13. september 1998 (79 ára) Montgomery, Alabama, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiLurleen Burns (g. 1943; d. 1968)
Cornelia Snively (g. 1971; sk. 1978)
Lisa Taylor (g. 1981; sk. 1987)
Börn4
HáskóliHáskólinn í Alabama
Undirskrift

George Corley Wallace Jr. (25. ágúst 1919 – 13. september 1998) var bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum sem var þrívegis fylkisstjóri Alabama. Wallace var á sínum tíma einn umdeildasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna vegna andstöðu sinnar gegn réttindabaráttu bandarískra blökkumanna og stuðnings síns við kynþáttaaðskilnaðarstefnu. Hann sóttist nokkrum sinnum eftir útnefningu Demókrata í forsetakosningum Bandaríkjanna og bauð sig sjálfstætt fram til forseta árið 1968.

George Wallace fæddist þann 25. ágúst árið 1919 í Clio í Alabama. Hann nam lögfræði við Háskólann í Alabama og gegndi herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf afskipti af stjórnmálum eftir að hann sneri heim úr stríðinu og var um hríð aðstoðardómsmálaráðherra í fylkisstjórn Alabama. Árið 1946 var hann kjörinn á fylkisþing Alabama og varð umdæmisdómari til ársins 1959. Sem dómari vakti Wallace þjóðarathygli þegar hann neitaði að veita Mannréttindanefnd Bandaríkjanna aðgang að kjörskrám Alabama til þess að hægt væri að ganga úr skugga um hvort svörtum kjósendum væri mismunað. Wallace var kvaddur fyrir rétt vegna málsins en það var síðar látið niður falla.[1][2]

Fylkisstjóratíð í Alabama

[breyta | breyta frumkóða]

Wallace bauð sig fram til embættis fylkisstjóra Alabama í fyrsta skipti árið 1958 en bað ósigur. Hann bauð sig aftur fram árið 1962, náði í þetta sinn kjöri og tók við embætti fylkisstjóra í byrjun næsta árs. Í innsetningarræðu sinni lofaði Wallace því að verja „engilsaxneska íbúa“ Alabama undan „kommúnískri samblöndun“ við blökkumenn. Hann lauk ræðunni með því að lofa lofa „aðskilnaði í dag, aðskilnaði á morgun, aðskilnaði að eilífu“.[3]

Fyrsta kjörtímabil Wallace litaðist mjög af réttindabyltingu bandarískra blökkumanna sem þá var í fullum gangi. Wallace beitti sér af hörku gegn réttindabaráttunni og gegn tilraunum alríkisstjórnarinnar til að létta á kynþáttaaðskilnaði í Alabama. Hann vakti athygli um öll Bandaríkin árið 1963 þegar hann tók sér stöðu í anddyri Háskólans í Alabama til að koma í veg fyrir að svartir nemendur fengju að ganga þar inn. Wallace lét sig hverfa út um bakdyr áður en til verulegra átaka kom en með þessum gjörningi varð hann þó þjóðhetja aðskilnaðarsinna í suðurríkjum Bandaríkjanna.[4] Wallace skipaði jafnframt ríkislögreglu Alabama að stöðva kröfugöngu blökkumanna frá Selma til Montgomery með valdi árið 1965.[1]

Wallace sóttist í fyrsta skipti eftir forsetastól Bandaríkjanna árið 1964 þegar hann bauð sig fram gegn sitjandi forsetanum Lyndon B. Johnson í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fóru fram síðar sama ár. Wallace og margir úr íhaldsvæng Demókrataflokksins voru orðnir fráhverfir Johnson vegna stuðnings hans við réttindabaráttu blökkumanna. Eftir að Repúblikanar útnefndu hinn íhaldssama Barry Goldwater sem forsetaefni sitt dró Wallace framboð sitt til baka og studdi Goldwater.[1]

Fyrsta kjörtímabili Wallace lauk árið 1967 og samkvæmt lögum Alabama mátti hann ekki gegna tveimur kjörtímabilum sem fylkisstjóri í röð. Wallace reyndi fyrst án árangurs að ná í gegn lagabreytingu til að heimila honum að bjóða sig fram til endurkjörs en brá síðan á það ráð að fá eiginkonu sína, Lurleen, til að bjóða sig fram í embættið. Hún náði kjöri og tók við af eiginmanni sínum sem fylkisstjóri Alabama í janúar 1967. Almennt var haft fyrir satt að Wallace hygðist sjálfur fara með eiginleg völd sem eiginmaður fylkisstjórans.[5] Þegar Laurleen var kjörin fylkisstjóri var hún þegar illa haldin af krabbameini sem dró hana til dauða árið 1968, áður en kjörtímabili hennar lauk.[4]

Forsetakosningarnar 1968

[breyta | breyta frumkóða]

Wallace gaf kost á sér í forsetakosningunum ársins 1968 sem frambjóðandi Óháða flokksins svokallaða á móti Hubert Humphrey, frambjóðanda Demókrata, og Richard Nixon, frambjóðanda Repúblikana. Varaforsetaefni Wallace var hershöfðinginn Curtis LeMay.[6] Wallace gerði sér grein fyrir því að sigurlíkur hans voru litlar, en hann vonaðist til þess að geta klofið atkvæðahópinn og komið í veg fyrir að neinn frambjóðandi næði hreinum meirihluta í kjörmannaráðinu. Þá hefði komið í hlut fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að kjósa forsetann og Wallace vonaðist til þess að þá gætu þingmenn suðurríkjanna samið um stjórn sem myndi ekki beita sér fyrir áframhaldandi afléttingu kynþáttaaðskilnaðar.[7][8] Í kosningunum hlaut Wallace 13,5% atkvæðanna og vann sigur í fimm fylkjum; Alabama, Arkansas, Georgíu, Louisiana og Mississippi. Honum tókst hins vegar ekki að koma í veg fyrir að Nixon næði hreinum meirihluta kjörmanna í kosningunum og Wallace og bandamenn hans gátu því ekki haft áhrif á stjórnarmyndun eftir kosningarnar. Wallace er síðasti bandaríski forsetaframbjóðandinn utan stóru flokkanna tveggja sem hefur unnið kjörmenn í kosningum.

Eftir ósigurinn í forsetakosningunum bauð Wallace sig árið 1970 fram til endurkjörs sem fylkisstjóri Alabama. Í kosningabaráttu sinni í forvali Demókrataflokksins höfðaði hann opinskátt til kynþáttahatara og varaði við því að blökkumenn myndu „taka yfir“ Alabama ef hann næði ekki kjöri.[9] Wallace vann forvalið og vann síðar stórsigur í fylkisstjórakosningum fylkisins. Hann hélt fylkisstjórastólnum nú í tvö kjörtímabil, allt fram til ársins 1979.

Morðtilræði og síðari æviár

[breyta | breyta frumkóða]

Wallace gerði aftur misheppnaða tilraun til að ná útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar árið 1972 og sagðist vilja bjarga flokknum úr greipum „hinna frjálslyndustu, eða sérlyndu, eða vinstrimanna“.[2] Þann 15. maí 1972, á meðan baráttan um útnefninguna var enn í gangi, gerði maður að nafni Arthur Bremer tilraun til að ráða Wallace af dögum. Bremer skaut fimm skotum af stuttu færi á Wallace á kosningafundi í Laurel í Maryland.[10] Wallace lifði árásina af en var lamaður fyrir neðan mitti það sem eftir var og þurfti að notast við hjólastól. Meiðsl Wallace neyddu hann til að draga framboð sitt til baka árið 1972. Hann gerði þriðju og síðustu tilraun sína til að ná tilnefningu Demókrata í forsetakosningum árið 1976 en án árangurs.[2]

Síðla á áttunda áratugnum tilkynnti Wallace að hann hefði öðlast andlega endurvakningu í evangelistakirkjunni og sæi nú eftir afstöðu sinni gagnvart réttindabaráttu blökkumanna. Hann bað leiðtoga réttindahreyfingarinnar afsökunar og bað bandaríska blökkumenn að fyrirgefa sér.[11]

Árið 1982 bauð Wallace sig aftur fram til embættis fylkisstjóra í Alabama og vann nauman sigur gegn frambjóðanda Repúblikana. Á þriðju og síðustu fylkisstjóratíð sinni var hann mildari í garð svartra borgara en áður og útnefndi metfjölda blökkumanna í ríkisembætti.[12] Wallace settist í helgan stein að loknu kjörtímabili sínu árið 1987 og lést árið 1998.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „George Wallace“. Morgunblaðið. 16. maí 1972.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Framboð Wallace“. Vísir. 18. nóvember 1975.
  3. Eiríkur Bergmann (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. Sviss: Palgrave Macmillan. bls. 79. doi:10.1007/978-3-030-41773-4. ISBN 978-3-030-41772-7.
  4. 4,0 4,1 Sven Öste (17. október 1968). „Þessi George Wallace“. Þjóðviljinn.
  5. „Wallace vill stjórna með konu sinni“. Alþýðublaðið. 20. mars 1966.
  6. „Wallace gæti orðið forseti Bandaríkjanna“. Morgunblaðið. 25. september 1968.
  7. Miller, William (1968). A New History of the United States (paperback) (New Revised. útgáfa). Dell Publishing. bls. 485.
  8. „Beinar forsetakosningar mundu styrkja lýðræðið í Bandaríkjunum“. Vísir. 23. september 1969.
  9. Swint, Di Kerwin C. (2006). Mudslingers: The Top 25 Negative Political Campaigns of All Time Countdown from No. 25 to No. 1. Greenwood Publishing Group. bls. 228. ISBN 978-0-275-98510-3.
  10. „Hrópaði „Hæ, George" um leið og hann skaut að Wallace“. Tíminn. 16. maí 1972.
  11. Elliott, Debbie (14. september 1998). „Remembering George Wallace“. National Public Radio. Sótt 4. febrúar 2015.
  12. Foner, Eric; John Arthur Garraty; Society of American Historians (1991). The Reader's Companion to American History. Houghton Mifflin Harcourt. bls. 1127. ISBN 978-0-395-51372-9.