Fara í innihald

Geert Wilders

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Geert Wilders
Geert Wilders árið 2019.
Fæddur6. september 1963 (1963-09-06) (61 árs)
ÞjóðerniHollenskur
MenntunOpen Universiteit Nederland
FlokkurFrelsisflokkurinn
MakiKrisztina Márfai (g. 1992)

Geert Wilders (f. 6. september 1963) er hollenskur stjórnmálamaður og formaður hollenska Frelsisflokksins. Wilders er þekktur fyrir gagnrýni sína á íslamstrú, Evrópusambandið og ólöglegan innflutning fólks til Hollands.

Geert Wilders fæddist árið 1963 í bænum Venlo. Áður en hann stofnaði Frelsisflokkinn hafði hann starfað sem ritari í Frelsis- og lýðræðisflokknum.[1]

Wilders stofnaði Frelsisflokkinn upp úr rústum Lista Pim Fortuyn, sem áður hafði verið helsti flokkur hægri-popúlista í Hollandi. Flokkurinn hefur ætíð verið einkaeign Wilders sjálfs, sem er eini skráði meðlimur hans. Frelsisflokkurinn hlaut sex prósent atkvæða í þingkosningum Hollands árið 2006 og komst inn á þing. Wilders féllst síðar á að styðja minnihlutastjórn Marks Rutte í skiptum fyrir að tiltekin stefnumál Frelsisflokksins hlytu framgang.[2]

Wilders var frumkvöðull að popúlískri stefnu þar sem vinstrisinnuðum stefnum í félags- og efnahagsmálum var blandað saman við hægrisinnaðar og íhaldssamar menningarhugmyndir og við andúð á íslamstrú og múslimskum innflytjendum.[2] Wilders hefur haldið því fram að koma innflytjenda til Evrópu sé helsta ógnin við evrópska menningu og hefur sakað innlenda félagslega elítu um að grafa undan Hollandi með árásum á þjóðríkið.[3]

Árið 2016 var réttað yfir Wilders vegna ásakana í hans garð um hatursorðræðu í tengslum við ummæli hans um innflytjendur frá Marokkó tveimur árum fyrr. Wilders var sýknaður af ákærunni um hatursorðræðu en var talinn sekur um mismunun með ummælum sínum.[4]

Flokkur Wilders vann afgerandi sigur í þingkosningum Hollands árið 2023.[5] Flokkurinn hlaut 37 þingsæti en hafði haft 16 fyrir kosningarnar.[6] Wilders hét því í kjölfarið að stefna að myndun nýrrar stjórnar og verða forsætisráðherra.[7] Í mars 2024 sagðist Wilders hins vegar ekki lengur vonast eftir forsætisráðherrastólnum vegna erfiðleika í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka.[8] Að endingu féllst Frelsisflokkurinn á að mynda samsteypustjórn með öðrum flokkum með hinn óflokksbundna Dick Schoof sem forsætisráðherra.[9]

  • Eiríkur Bergmann (2021). Þjóðarávarpið: Popúlísk þjóðernishyggja í hálfa öld. Reykjavík: JPV útgáfa. ISBN 978-9935-29-078-6.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 252.
  2. 2,0 2,1 Eiríkur Bergmann 2021, bls. 177.
  3. Eiríkur Bergmann 2021, bls. 253.
  4. „Wilders sekur um mismunun“. mbl.is. 9. desember 2016. Sótt 11. desember 2023.
  5. Anna Kristín Jónsdóttir (28. nóvember 2023). „Popúlismi mylur undan frjálslyndi“. RÚV. Sótt 1. desember 2023.
  6. Birgir Þór Harðarson (23. nóvember 2023). „Uppnám í hollenskum stjórnmálum eftir stórsigur Wilders“. RÚV. Sótt 1. desember 2023.
  7. Þorgils Jónsson (26. nóvember 2023). „Wilders heitir því að verða forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 1. desember 2023.
  8. Rafn Ágúst Ragnarsson (13. mars 2024). „Gefst upp á því að verða for­sætis­ráð­herra“. Vísir. Sótt 28. mars 2024.
  9. Þorgils Jónsson (28. maí 2024). „Fyrrum leyniþjónustustjóri verður forsætisráðherra Hollands“. RÚV. Sótt 2. júlí 2024.