Fara í innihald

Emomali Rahmon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Emomali Rahmon
Эмомалӣ Раҳмон
Emomali Rahmon árið 2021.
Forseti Tadsíkistans
Núverandi
Tók við embætti
16. nóvember 1994
ForsætisráðherraAbdujalil Samadov
Jamshed Karimov
Yahyo Azimov
Oqil Oqilov
Kokhir Rasulzoda
ForveriRakhmon Nabíjev
Formaður æðstaráðs Tadsíkistans
Í embætti
20. nóvember 1992 – 16. nóvember 1994
ForsætisráðherraAkbar Mirzoyev
Abdumalik Abdullajanov
Abdujalil Samadov
ForveriAkbarsho Iskandrov
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. október 1952 (1952-10-05) (72 ára)
Danghara, tadsíska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkur alþýðunnar (1994–)
MakiAzizmo Asadullajeva (g. á 8. áratugnum)
Börn9
Undirskrift

Emomali Rahmon (fæddur undir nafninu Emomalí Shapírovítsj Rakhmonov, tadsíkíska: Эмомалӣ Шарӣпович Раҳмонов, f. 5. október 1952) hefur verið forseti Tadsíkistans frá 16. nóvember 1994. Hann var áður formaður æðstaráðs Tadsíkistans og var því í reynd þjóðhöfðingi landsins frá 20. nóvember 1992 til 16. nóvember 1994.

Rahmon er einræðisherra og hefur ítrekað verið endurkjörinn á forsetastól í kosningum sem teljast hvorki frjálsar né sanngjarnar. Hann er þaulsetnasti leiðtogi allra fyrrum lýðvelda Sovétríkjanna.

Emomali Rahmon er af bændaættum og er fæddur (undir nafninu Emomalí Shapírovítsj Rakhmonov) í bænum Danghara í Kúlob oblast, sem er í dag hluti af héraðinu Khatlon. Rahmon kleif metorðastigann sem embættismaður innan Kommúnistaflokksins og varð þannig hluti af forréttindastétt embættismanna (nomenklatura) í Sovétríkjunum. Fyrsta meiriháttar ábyrgðarstaða Rahmons var sem formaður ríkisrekins samyrkjubús í heimabæ hans, Danghara.

Árið 1990 var Rahmon kjörinn fulltrúi á æðstaráð tadsíska sovétlýðveldisins, sem lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991. Í september árið 1992 sagði Rakhmon Nabíjev, forseti Tadsíkistans, af sér þar sem hann óttaðist um líf sitt vegna fjöldamótmæla gegn stjórn hans sem þá stóðu yfir. Akbarsho Iskandarov tók við forsetaembættinu til bráðabirgða en dró sig til hlés í nóvember til að reyna að róa mótmælendurna. Forsetaembættið var í kjölfarið lagt niður og Rahmon varð þjóðhöfðingi Tadsíkistans sem nýkjörinn formaður æðstaráðs landsins.

Þann 6. nóvember 1994 var Rahmon kjörinn forseti Tadsíkistans eftir að ákveðið var að endurstofna embættið. Hann tók við forsetaembætti þann 16. nóvember sama ár. Eftir stjórnarskrárbreytingu var hann endurkjörinn þann 6. nóvember árið 1999 með 97% atkvæðanna. Kjörtímabil forsetans var þá jafnframt lengt í sjö ár. Stjórnarandstaðan hélt því fram að stjórnarskrárbreytingarnar hefðu farið svo leynt að þær jöðruðu við kosningasvik.

Rahmon var aftur endurkjörinn forseti þann 6. nóvember árið 2006, með um 79% atkvæðanna. Hann bauð sig aftur fram árið 2013 og sigraði á ný, þetta sinn með 83,6 prósentum atkvæða. Eftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu gagnrýndu framkvæmd kosninganna og sögðu þær ekki standa alþjóðaviðmið um lýðræðislegar kosningar.[1][2]

Í apríl árið 2007 lifði Rahmon af banatilræði í Khujand. Hann hefur einnig staðið af sér tvær valdaránstilraunir; eina í ágúst 1997 og aðra í nóvember 1998.[3]

Árið 2020 var sonur Rahmons, Rustem Emomali, skipaður forseti öldungadeildar tadsíska þingsins og þar með staðgengill forsetans. Talið er að Rahmon ætlist til þess að Rustem taki við af sér á forsetastól þegar þar að kemur.[4] Rahmon bauð sig aftur fram til endurkjörs þetta ár og vann með um 90,9 prósenta fylgi.[5]

Rahmon hefur viðhaldið veraldlegum stjórnarháttum í Tadsíkistan og reynt að sporna við uppgangi íslamskra bókstafstrúarmanna. Árið 2010 hótaði hann að reka fólk úr landi sem klæddu sig að hætti múslima og sagði að Tadsíkar hefðu sínar eigin hefðir í klæðaburði.[6] Árið 2015 talaði Rahmon fyrir nýrri lagasetningu til að banna mannanöfn sem þættu of arabísk.[7]

Árið 2021 lést systir Rahmons, Qurbonbi Rahmonova, úr Covid-19 eftir langa dvöl á sjúkrahúsi. Fréttir bárust um að Rahmon hefði leyft systursonum sínum að berja heil­brigð­is­ráð­herr­ann Jam­ol­idd­in Abdull­oz­od­a, lækn­inn Khol­mu­hamm­ad Rah­imz­od­a­by og fleir­i heil­brigð­is­starfs­menn. Abdull­oz­od­a og Rah­imz­od­a­by slösuðust alvarlega eftir barsmíðarnar.[8]

Nafnbreyting

[breyta | breyta frumkóða]

Í mars árið 2007 var tilkynnt að Rakhmonov hefði stytt eftirnafn sitt í Rahmon. Hann fjarlægði endinguna -ov, sem er rússneskt viðskeyti sem er bætt við nöfn feðra til að mynda eftirnöfn drengja. Hann hvatti aðra Tadsíka til að fylgja fordæmi sínu til að leggja áherslu á tadsíska menningar- og þjóðararfleifð.[9]

Rahmon og tadsísk menning

[breyta | breyta frumkóða]

Rahmon taldi Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna á að lýsa árið 200204 þrjú þúsund ára afmælisár Zaraþústra. Í bók sinni, Tadsíkar í spegli sögunnar, hélt Rahmon því jafnframt fram að Zaraþústra hefði verið Tadsíki frá Baktríu. Hann skrifar:

Gæsalappir

Margar af meginreglum sóróisma hafa skilið eftir djúp spor í hugum Tadsíka. Þeir hafa fylgt þeim reglum að drepa ekki dýr þegar þau eru þunguð og höggva ekki tré á meðan þau blómstra. Vatn, jörð og eld ber að vernda gegn óhreinkun. Við notum enn þef ilmandi jurta til að bægja burt sjúkdómum og illum öflum. Þessi dæmi sýna ásamt öðrum að enn má finna ummerki um boðskap Zaraþústra á sérhverju tadsísku heimili. Vonum að Tadsíkar lifi áfram samkvæmt andlegri leiðsögn Zaraþústra, spámanns sannleika og ljóss, á nýja árþúsundinu.“

— .

Rahmon er súnnímúslimi og fór í pílagrímsför (hajj) til Mekku í mars árið 1997. Hann hefur hvatt til nánari tengsla Tadsíkistans við önnur íslömsk lönd í heimshlutanum, sérlega persneskumælandi löndin Íran og Afganistan.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Rahmon er kvæntur Azizmo Adadullajevu og á með henni níu börn.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Rakhmon líklega endurkjörinn“. RÚV. 6. nóvember 2013. Sótt 26. janúar 2023.
  2. „Rakhmon sigraði með yfirburðum“. RÚV. 7. nóvember 2013. Sótt 26. janúar 2023.
  3. „Tajikistan - Leninabad: Crackdown in the North“. Mannréttindavaktin. apríl 1998.
  4. Kristján Róbert Kristjánsson (3. september 2020). „Rakhmon sækist eftir endurkjöri“. RÚV. Sótt 26. janúar 2023.
  5. Ásgeir Tómasson (12. október 2020). „Öruggur um endurkjör í Tadsíkistan“. RÚV. Sótt 26. janúar 2023.
  6. „Forseti ósáttur við slæður“. RÚV. 1. september 2010. Sótt 26. janúar 2023.
  7. „Forsetinn vill banna arabísku nöfnin“. mbl.is. 12. maí 2015. Sótt 26. janúar 2023.
  8. Þorvarður Pálsson (27. júlí 2021). „Börð­­u heil­br­igð­­is­r­áð­h­err­­ann því syst­­ir for­­set­­ans fékk Co­v­id“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. september 2021. Sótt 26. janúar 2023.
  9. „Президент Таджикистана отрезал от своей фамилии русское окончание“. Lenta.ru. 21. mars 2007. Sótt 27. janúar 2023.


Fyrirrennari:
Rakhmon Nabíjev
Forseti Tadsíkistans
(16. nóvember 1994 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti