Fara í innihald

Bertha Parker Pallan Cody

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bertha Parker sýnir spjótslöngvur í Gifshellarannsókninni um 1930.

Bertha Pallan Thurston Cody (fædd Parker; 30. ágúst 1907 – 8. október 1978) var bandarískur fornleifafræðingur, þjóðfræðingur og safnafræðingur af frumbyggjaættum (Abenakar og Senekar) sem varð þekkt fyrir rannsóknir sínar og uppgötvanir í Gifshellunum í Nevada og vinnu sína í Southwest Museum of the American Indian í Los Angeles í Kaliforníu.

Hún var dóttir leikkonunnar Beulah Tahamont og fornleifafræðingsins Arthur C. Parker. Faðir hennar var fyrsti forseti fagfélagsins Society for American Archaeology. Bæði hún og móðir hennar komu fram í vestrasýningum Ringling Bros. og Barnum & Bailey. Afi hennar var kvikmyndaleikarinn og Abenakahöfðinginn Elijah Tahamont „Dark Cloud“. Bertha hóf feril sinn í fornleifafræði þegar hún gerðist aðstoðarkona Mark Raymond Harrington sem var eiginmaður frænku hennar. Rannsóknir þeirra á mannvistarleifum í Gifshellunum í Nevada árið 1930 voru á vegum Southwest Museum. Harrington kynnti þessar leifar sem elstu ummerki um mannabyggð í Norður-Ameríku. Bertha uppgötvaði sjálf hauskúpu risaletidýrs sem vakti mikla athygli og tryggði þeim aukið fjármagn.

Frá 1931 vann Bertha á Southwest Museum, fyrst sem ritari, en síðan sem aðstoðarfornleifafræðingur og þjóðfræðingur. Hún hafði enga formlega háskólamenntun. Hún gaf út fjölda greina í safntímaritinu Masterkey. Hún giftist þrisvar, fyrst Joseph Pallan sem hún átti með dótturina Wilma Mae árið 1925 en skildi svo við, síðan steingervingafræðingnum James Thurston sem lést skömmu síðar, og síðast leikaranum Iron Eyes Cody, en þau ættleiddu saman tvo drengi.

  Þetta æviágrip sem tengist Bandaríkjunum og fornfræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.