Fara í innihald

Antoni van Leeuwenhoek

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Antonie van Leeuwenhoek)
Lífvísindi
17. öld
Nafn: Antoni van Leeuwenhoek
Fæddur: 24. október 1632 í Delft í Hollandi
Látinn 26. ágúst 1723 í Delft í Hollandi
Svið: Örverufræði
Helstu
viðfangsefni:
Smásjárskoðun, linsugerð
Markverðar
uppgötvanir:
Örverur, Rauð blóðkorn
Helstu ritverk: Röð greina um smásjárskoðanir sem birtust í The Philosophical Transactions of the Royal Society á árunum frá 1673 til 1723.

Antoni van Leeuwenhoek (24. október 163226. ágúst 1723) var hollenskur smásjársmiður og vísindamaður. Hann er þekktastur fyrir að hafa lýst örverum fyrstur manna og er því gjarnan sagður faðir örverufræðanna[1]. Hann var einnig fyrstur til að lýsa sæðisfrumum, byggingu vöðvatrefja, og blóðflæði í háræðum.

Leeuwenhoek, sem skírður var Thonis Philipszoon en varð fljótlega kenndur við æskuheimili sitt í Leeuwenpoort-stræti, var sonur körfugerðarmannsins Philip Thonisz og konu hans, Grietje Jacobs van den Berch. Faðir hans lést reyndar árið 1638 og ólst Thonis því upp föðurlaus frá unga aldri. Móðir hans giftist að nýju þremur árum síðar og sendi hann þá til náms, fyrst í menntaskóla nærri Leiden, en síðar til Amsterdam og mæltist til að hann lærði bókhald. Hann komst hins vegar í læri hjá skoskum álnavörukaupmanni og fékkst þar við afgreiðslu og bókhald. Í því starfi komst hann fyrst í snertingu við stækkunargler sem notað var til að að skoða vefnað. Hann heillaðist af stækkunarglerinu og varð sér úti um sitt eigið. Árið 1654 fluttist hann aftur heim til Delft og opnaði þar álnavörubúð. Þann 11. júlí það ár kvæntist hann Barböru de Mey og var nafn hans skráð við það tækifæri sem Anthoni Leeuwenhouck. Þau Barbara eignuðust fimm börn, en fjögur þeirra dóu ung. Barbara lést árið 1666, en fimm árum síðar kvæntist Leeuwenhoek prestsdótturinni Corneliu Swalmius. Hann átti einnig eftir að lifa hana um all mörg ár, en hún lést 1694. Leeuwenhoek lifði fram á tíræðisaldur, en hann lést, saddur lífdaga, árið 1723.

Fræðastörf

[breyta | breyta frumkóða]
Eftirmynd af einni af smásjám Leeuwenhoeks

Antoni van Leewenhoek gekk aldrei í háskóla né lærði latínu, en gerði sig þó gildandi í evrópsku fræðasamfélagi með fádæma skarpri athyglisgáfu sinni og nákvæmni. Hann gerðist einnig öðrum mönnum leiknari í linsugerð og setti saman einnar linsu smásjár (í raun stækkunargler) sem stóðust fyllilega samanburð við samsettar smásjár þess tíma hvað upplausn og stækkunargetu varðaði. Hann hélt tækni sinni við linsugerðina vandlega leyndri og þótti furðu sæta hve hratt hann gat smíðað hágæða smásjár, en hann setti þær saman svo hundruðum skipti á starfsævi sinni. Smásjárnar notaði hann til að skoða hvers kyns sýni sem á vegi hans urðu. Árið 1673 kom hinn virti læknir og líffærafræðingur Reinier de Graaf, sem einnig bjó í Delft, honum í samband við Konunglega vísindafélagið (e. Royal Society) í London og ritaði Leeuwenhoek félaginu reglulega bréf þar sem hann útlistaði athuganir sínar af fádæma nákvæmni. Bréfin voru þýdd á ensku og gefin út í riti félagsins, Philosophical Transactions, og hélt Leeuwenhoek áfram að skrifa félaginu allt til dauðadags. Meðal þess sem Leeuwenhoek ritaði um má nefna ítarlega lýsingu á kjafti býflugna og ýmsum öðrum hlutum skordýra, byggingu kaffibaunarinnar, byggingu sæðisfrumna og smásæjar lífverur í regnvatni og ýmsum öðrum vökvum. Hann telst fyrstur manna til að lýsa bæði frumdýrum og gerlum.

  1. J. O. Corliss (2002) „A salute to Antony van Leeuwenhoek of Delft, most versatile 17th century founding father of protistology“. Protist 153, 177-190.