Albert Hofmann
Albert Hofmann (11. janúar 1906 – 29. apríl 2008) var svissneskur efnafræðingur, sem er einna þekktastur fyrir að vera sá sem uppgötvaði ofskynjunarlyfið LSD og lýsti ofskynjunaráhrifum þess.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Albert Hofmann fæddist í Baden í Sviss. Hann var elstur fjögurra systkina. Foreldrar þeirra voru vélsmiðurinn Adolf Hofmann og konu hans Elisabeth. Albert hóf nám í efnafræði við háskólann í Zürich tvítugur að aldri og lauk grunnnámi þremur árum síðar, árið 1929. Doktorsgráðu hlaut hann þegar ári síðar fyrir rannsóknir sínar á kítíni.
Hofmann fór að vinna hjá lyfjadeild Sandoz-rannsóknarstofunnar (nú Novartis) með stofnanda deildarinnar, prófessor Arthur Stoll, einkum við rannsóknir á lækningajurtinni Scilla glycosides og sveppnum korndrjóla og leit að aðferðum til að framleiða virku efnin í þeim á efnafræðilegan hátt. Það var í tengslum við þessar rannsóknir sem hann bjó fyrst til LSD 16. nóvember 1938.
Það var þó ekki fyrr en fimm árum síðar, 19. apríl 1943, sem hann ákvað að gera tilraun með verkun efnisins á sjálfum sér og taka inn 250 míkrógrömm að efninu, sem hann taldi það magn sem þyrfti til að framkalla áhrif (það sem raunverulega þarf til er 20 míkrógrömm). Innan við klukkustund síðar varð hann fyrir miklum breytingum á skynjun, barðist við kvíðatilfinningu og taldi nágranna sinn göldróttan. Sjálfur taldi hann að hann væri að verða geðveikur og hefði orðið fyrir eitrun en þegar læknir var sóttur til hans fannst ekkert að og áhrifin hurfu.
Hofmann stýrði síðar náttúruefnadeild Sandoz og hélt áfram að rannsaka ofskynjunarefni í mexíkóskum sveppum og jurtum sem frumbyggjar notuðu til að komast í vímu og fann þar meðal annars efni náskyld LSD.
Hofmann kallaði LSD læknislyf fyrir sálina og þótti miður að það skyldi vera bannað um allan heim. Hann sagði að vissulega væri það sterkt efni sem gæti verið hættulegt ef það væri misnotað eins og gert hefði verið á 7. áratugnum en það hefði verið notað með góðum árangri í sálgreiningarmeðferð í áratug fyrir þann tíma og gæti nýst vel ef það væri notað á réttan hátt. Hann fagnaði þegar fregnir bárust af því í desember 2007 að til stæði að hefja að nýju í Sviss tilraunir með efnið við meðferð sjúklinga sem þjást af krabbameini á lokastigi og öðrum banvænum sjúkdómum. Hann átti að flytja ávarp á þinginu World Psychedelic Forum í mars 2008 en varð að afboða það vegna veikinda. Hann lést mánuði síðar í þorpinu Burg im Leimental, 102 ára að aldri.