Ólafur Briem
Ólafur Briem (28. janúar 1851 – 19. maí 1925) var íslenskur bóndi, alþingismaður og settur sýslumaður í Skagafjarðarsýslu nokkrum sinnum.
Ólafur var fæddur á Espihóli í Eyjafirði, sonur Eggerts Briem sýslumanns þar og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur. Hann ólst upp í Eyjafirði og síðan Skagafirði frá árinu 1861, þegar faðir hans varð sýslumaður þar. Á meðal fjölmargra systkina Páls voru alþingismennirnir Eiríkur Briem, Gunnlaugur Briem og Páll Briem amtmaður og ein systra hans var Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur.
Ólafur stundaði nám við Lærða skólann og varð stúdent þaðan árið 1870. Hann var síðan skrifari hjá föður sínum allt til 1884, er Eggert lét af sýslumannsembætti, og var stundum settur sýslumaður í forföllum föður síns, auk þess sem hann veitti búi hans forstöðu. Árið 1885 hóf hann búskap á Frostastöðum í Blönduhlíð en fluttist 1887 að Álfgeirsvöllum á Efribyggð og bjó þar allt til 1920, þegar hann flutti til Reykjavíkur. Þar varð hann aðstoðarmaður í fjármálaráðuneytinu og gegndi því starfi til æviloka. Hann var einnig umboðsmaður Reynistaðarklaustursjarða frá 1888 og þar til hann flutti úr Skagafirði, amtsráðsmaður frá 1881-1907 og gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Sambands íslenskra samvinnufélaga frá 1920 til dauðadags.
Árið 1886 var Ólafur kjörinn alþingismaður Skagfirðinga og sat á þingi allt til 1919 fyrir ýmsa flokka, seinast fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var forseti sameinaðs þings 1895 og forseti neðri deildar 1914-1919.
Kona Ólafs var Halldóra Pétursdóttir. Á meðal barna þeirra voru Þorsteinn Briem, prófastur, alþingismaður og ráðherra, og Ingibjörg, kona Björns Þórðarsonar forsætisráðherra.