Fara í innihald

Frjálshyggja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frelsisstyttan í hafnarmynni New York-borgar

Frjálshyggja[1] er stjórnmálastefna sem segir að setja beri ríkisvaldi þröng takmörk, en treysta þess í stað aðallega á frjáls viðskipti og sjálfsprottnar venjur.

Frjálshyggja á rætur á síðmiðöldum í þeim hluta Norðurálfunnar, Evrópu, sem liggur eins og hálfmáni frá Norður-Ítalíu yfir Sviss, um Rínarlönd og Niðurlönd til Englands. Þar var ríkisvald veikt, kaupmenn voldugir og markaðir stórir. Helstu kennismiðir klassískrar frjálshyggju voru bresku heimspekingarnir John Locke og Adam Smith. Á síðari hluta sautjándu aldar færði Locke í Ritgerð um ríkisvald (e. Second Treatise on Civil Government) rök fyrir því, að einkaeignarréttur gæti myndast í fullu samræmi við náttúruréttinn, og væri ríkið einkum stofnað honum til verndar. Vald ríkisins væri reist á óskráðu samkomulagi milli borgaranna, en forsendur brysti fyrir hlýðni þeirra við ríkið, þegar það misnotaði vald sitt stórkostlega. Kenningar Lockes höfðu feikileg áhrif næstu tvær aldir, eins og Dýrlega byltingin í Bretlandi 1688, bandaríska byltingin 1776 og barátta frjálslyndra stjórnarskrársinna í konungsríkjum Norðurálfunnar bera vitni um. Sama ár og Bandaríkjamenn birtu sjálfstæðisyfirlýsingu sína, 1776, gaf Smith út bókina Auðlegð þjóðanna (e. The Wealth of Nations). Þar hélt hann því fram, að í vaxandi atvinnulífi þyrfti eins gróði ekki að verða annars tap, heldur gætu allir hagnast á frjálsum viðskiptum, því að við þau gætu þeir nýtt sér kosti verkaskiptingarinnar. Við frjáls viðskipti gæti atvinnulífið einnig verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla gæti komist á, án þess að neinn kæmi henni á. Í frjálsri samkeppni leiddi „ósýnileg hönd“ framleiðendur að því að vinna að almannahag, um leið og þeir kepptu að einkahag sínum.

Málverk Delacroix: Frelsið leiðir lýðinn (í götuvígjum Parísar 1830)

Sigurganga frjálshyggjunnar á 19. öld stöðvaðist í Þýskalandi, þar sem Otto von Bismarck kanslari takmarkaði frjáls viðskipti við önnur lönd með tollmúrum og hóf víðtæk ríkisafskipti til að afla fylgis verkamanna. Þar liggja rætur velferðarríkisins, sem náði fullum þroska á tuttugustu öld. Þótt Þjóðverjar töpuðu stríðinu 1914-1918, unnu þeir friðinn í þeim skilningi, að hugmyndir þaðan um að stýra atvinnulífinu einni hendi hlutu brautargengi. Smám saman tóku ýmsir að nota orðið „liberalism“, sem áður hafði verið heiti á frjálshyggju, um stjórnmálastefnu, sem gekk miklu lengra í átt til ríkisafskipta. Sérstaklega átti þetta við í Bandaríkjunum í stjórnartíð Franklins D. Roosevelt forseta (1933-1945), en fylgismenn hans kölluðu sjálfa sig „liberals“, frjálslynda, og andstæðinga sína „conservatives“, íhaldssama. Í heimskreppunni hafði draumur frjálshyggjumanna um sjálfstýringu atvinnulífsins í krafti frjálsra viðskipta beðið mikinn hnekki. En árið 1947 söfnuðust frjálshyggjumenn í eldri skilningi orðsins saman í Mont Pèlerin í Svisslandi, stofnuðu samtök til að efla kenningar sínar að rökum og hafa síðan hist reglulega. Forystumenn Mont Pèlerin samtakanna voru Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman, sem síðar hlutu báðir Nóbelsverðlaun í hagfræði. Með valdatöku Margrétar Thatcher í Bretlandi 1979 og Ronalds Reagan í Bandaríkjunum 1981 var stefnan í þessum löndum tekin í átt til frjálshyggju.

Frjálshyggja samtímans

[breyta | breyta frumkóða]

Í lok 20. aldar virtist heimurinn hafa snúið til svipaðs skipulags frjálsra viðskipta og víðast hvar stóð fyrir 1914, þótt þrennt væri að mati frjálshyggjumanna ólíkt: Víðtækt og rausnarlegt velferðarkerfi torveldar sumum ríkjum að leyfa frjálsan innflutning fólks; vinnumarkaður, sérstaklega í Evrópu, er ekki eins sveigjanlegur og áður; og ekki hefur enn tekist að finna jafntraustan bakhjarl peninga og gullfótur var á 19. öld, en frjálshyggjumenn 20. aldar börðust fyrir afnámi gullfótarins.

  • Frjálshyggjumenn samtímans telja, að margvíslegar breytingar megi gera á velferðarkerfinu, án þess að kjör lítilmagnans versni. Til dæmis þurfi ekki að styrkja efnafólk af þeirri ástæðu einni, að það eigi mörg börn, sé orðið aldrað eða eigi við örorku að stríða. Þótt ríkið kosti skóla og sjúkrahús, geti það leyft einkaaðilum að reka slík fyrirtæki og neytendum að velja um þau.
  • Frjálshyggjumenn samtímans telja, að rétta ráðið gegn fátækt í þriðja heiminum sé ekki að veita ríkjum þar svokallaða þróunaraðstoð, sem renni ósjaldan í bankareikninga valdsmanna, heldur stuðla þess í stað að frjálsum viðskiptum við fyrirtæki og alþýðu. Valið sé um þróun án aðstoðar eins og í Hong Kong eða aðstoð án þróunar eins og á Grænhöfðaeyjum.
  • Frjálshyggjumenn samtímans telja, að vandann af mengun og sóun náttúruauðlinda megi leysa án víðtækra ríkisafskipta. Skilgreina megi einkaeignarrétt á náttúrugæðum, og þá hætti menn að sóa þeim, en eigendurnir taki þess í stað að sér að gæta þeirra.
  • Frjálshyggjumenn samtímans telja reynsluna sýna, að minnihlutahópar geti betur treyst markaðnum en ríkinu. Markaðurinn spyrji ekki, hvernig bakarinn sé á litinn (eða hver stjórnmálaskoðun hans eða kynhneigð sé), heldur hvernig brauðið sé á bragðið.

Frjálshyggja samtímans skiptist í nokkrar greinar, enda tala ekki allir frjálshyggjumenn einum rómi. Þeir sækja rök í rannsóknir Chicago-hagfræðinganna, austurrísku hagfræðinganna og Virginíu-hagfræðinganna, skáldsögur Ayns Rands og heimspekirit jafnólíkra hugsuða og Karls Poppers, Bertrands de Jouvenel og Roberts Nozicks. Nokkrir hinna róttækustu hafna jafnvel lágríkinu (e. minimal state), til dæmis David Friedman og Murray Rothbard, sem telja, að leysa megi öll mál á frjálsum markaði. Slíkir stjórnleysingjar eru þó í miklum minni hluta í röðum frjálshyggjumanna.

Gagnrýni á frjálshyggju

[breyta | breyta frumkóða]
Ein algengasta röksemd gegn einkaeignarrétti er, að hann hafi í för með sér misskiptingu auðs og valda, eins og sýnd er á þessu áróðurspjaldi frá 19. öld

Gagnrýni á frjálshyggju kemur úr ýmsum áttum.

  • Íhaldsmenn segja[hverjir?], að frjálshyggjumenn séu siðlausir, því að þeir séu hlutlausir um verðmæti. Í augum frjálshyggjumanna sé klámsalinn jafngildur kennaranum, því að báðir fullnægi þeir þörfum fólks. En klám sé ekki og eigi ekki að vera jafngilt kennslu. Frjálshyggjumenn svara því til[hverjir?], að menn geti haft margvíslegar skoðanir á mannlegum þörfum, en ekki fari vel, ef ríkið taki að sér að gera greinarmun á góðum og vondum þörfum.[heimild vantar]
  • Íhaldsmenn segja einnig[hverjir?], að frjálshyggjumenn beri ekki næga virðingu fyrir ýmsum verðmætum, sem eigi að vera óhult fyrir hinum frjálsa markaði. Það sé til dæmis ekki eðlilegt að leyfa fólki að reisa sumarbústaði í þjóðgarði, og Flateyjarbók og önnur forn handrit eigi ekki að ganga kaupum og sölum. Þetta séu dýrgripir, sem eigi að njóta verndar. Flestir frjálshyggjumenn [hverjir?] viðurkenna þetta sjónarmið en segja að þetta séu undantekningar en ekki meginregla. Aðrir frjálshyggjumenn segja að hlutir eins og Flateyjarbók og lendur sem í dag eru skilgreindir þjóðgarðar eigi að vera í einkaeigu: Einstaklingar hafa mikinn hvata til að hámarka verðmæti eigna sinna og ef Flateyjarbók er verðmætari í vel varðveittu ástandi þá muni einstaklingur varðveita hana vel.[heimild vantar]
  • Jafnaðarmenn segja[hverjir?], að frjálshyggjumenn taki ekki nægilegt tillit til lítilmagnans. Þetta sé hugmyndafræði hinna sterku, þeirra, sem eigi seljanlega hæfileika á markaði. Frjálshyggjumenn[hverjir?] svara því til, að sjálfsagt sé að hjálpa þeim, sem hjálpar eru þurfi og geti ekki gert að því, hvernig komið sé fyrir þeim. En aðrir eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér. Þeir eigi að njóta þess, sem þeir geri vel, og bera sjálfir kostnaðinn af mistökum sínum í stað þess að velta honum yfir á almenning.[heimild vantar]
  • Jafnaðarmenn segja líka[hverjir?], að vald í höndum auðkýfinga sé ekki síður hættulegt en ríkisvaldið, sem frjálshyggjumenn óttist. Frjálshyggjumenn [hverjir?] svara því til, að vissulega verði að setja valdi auðkýfinga skorður, en þær felist í réttarríkinu, almennum lögum og reglum, og þurfi ekki meira til. Enn fremur hefur hagfræðingurinn Milton Friedman mótmælt þessum rökum á þann hátt að hættan við vald hinna ríku og stóru stigmagnist með afskiptum ríkisins, en ekki öfugt.[heimild vantar]

Algengustu rökin gegn kröfunni um aukið atvinnufrelsi eru að frjálshyggjumenn ofmeti markaðinn og vanmeti ríkið. Margt sé þess eðlis, að það þurfi að leysa með sameiginlegu átaki borgaranna, ekki í viðskiptum einstaklinga. Einkaeignarréttur eigi ekki heldur alls staðar við. Svar frjálshyggjumanna er, að vissulega sé eitthvað til í þessum rökum. Markaðurinn leysi ekki allan vanda. En aðalatriðið sé, að hann sé þó vænlegri til árangurs en félagshyggjumenn telji. Markaðurinn sé vissulega ekki gallalaus, en ekki beri að einblína á galla hans, heldur bera saman ríkisafskipti og markaðsviðskipti, verðlagningu og skattlagningu, og kanna, hvar þetta eigi hvort um sig við.[heimild vantar]

Frjálshyggja á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta skrif sem dregur að segja má nokkurn dám af frjálshyggju[heimild vantar] á Íslandi var ritgerð Jóns Sigurðssonar forseta um verslun á Íslandi í Nýjum félagsritum 1843[2]. Jón hafði kynnt sér röksemdir Lockes fyrir takmörkun ríkisvaldsins og Smiths fyrir frjálsum viðskiptum og beitti þeim óspart í sjálfstæðisbaráttunni [heimild vantar]. Fyrsta íslenska hagfræðiritið, Auðfræði Arnljóts Ólafssonar 1880, var samið í anda frjálshyggju, enda stuðst þar við verk hins frjálslynda franska rithöfundar Fréderics Bastiats. Aldamótakynslóðin undir forystu Hannesar Hafsteins aðhylltist frjálshyggju, þótt hún hefði ekki mörg orð um hana. Kenningar enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills höfðu þá nokkur áhrif á Íslandi, en tvö rit hans, Frelsið og Kúgun kvenna, voru þýdd á íslensku fyrir og um 1900. Það var þó ekki fyrr en sósíalismi þeirra Jónasar Jónssonar frá Hriflu og Ólafs Friðrikssonar kom til sögu, að Jón Þorláksson sá sig knúinn til að gera grein fyrir helstu rökum frjálshyggjumanna í ritgerðinni „Milli fátæktar og bjargálna“ 1929 (og studdist þar við verk sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels). Hér á landi lét frjálshyggja undan síga í heimskreppunni eins og annars staðar, og tekinn var upp haftabúskapur. Hagfræðingarnir Ólafur Björnsson, dr. Benjamín Eiríksson, Jóhannes Nordal og Jónas Haralz héldu þó fram frjálsum viðskiptum og áttu drjúgan þátt í að losa um ýmis höft, sérstaklega 1950 og 1960. Tveir umdeildustu hugsuðir frjálshyggjunnar, þeir Hayek og Friedman, lögðu leið sína til Íslands á 9. áratug 20. aldar að ráði Hannesar Hólmsteins Gissurarssonar, en Hannes er einn af helstu talsmönnum frjálshyggju á Íslandi og hefur haft ómæld áhrif á framgang hennar hér á landi. Þegar Davíð Oddsson myndaði fyrstu ríkisstjórn sína vorið 1991, var stefnan loks tekin að fullu í átt til frjálshyggju svipað og þau Thatcher og Reagan höfðu gert [heimild vantar]. Næsta hálfan annan áratug gerbreyttist íslenskt atvinnulíf. 1975 var íslenskt atvinnulíf hið 53. frjálsasta í heimi, en 2004 var það hið níunda. Að sama skapi var slakað á eftirliti með fjármálalífinu en Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002 í valdatíð Davíðs. Það var því ekki að ófyrirsynju, að Mont Pèlerin samtökin héldu fund á Íslandi í ágúst 2005 til að ræða frelsi og eignarrétt á nýrri öld, öld þegar samfélagið hafði færst nær frjálshyggju og að sama skapi fjarlægst norræna velferðarkerfið sem áður setti nokkurn svip á innviði þess. Árin 1979-1989 starfaði Félag frjálshyggjumanna að því að kynna frjálshyggju á Íslandi, og hefur Frjálshyggjufélagið, sem stofnað var 2002, tekið að sér svipað hlutverk. Í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi haustið 2008 er mjög deilt um tengsl hrunsins við frjálshyggju, orsakir og afleiðingar.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Orðið frjálshyggja er ýmist notað um það sem á ensku kallast libertarianism, neo-liberalism eða classical liberalism en sjaldnast um liberalism án formerkja nema í gamalli merkingu þess orðs.
  2. Ný félagsrit,3. árgangur 1843. Útgefandi: Nokkrir Íslendingar. Jón Sigurðsson o.fl. Sjá vefslóð: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2015328

Heimildir og rit

[breyta | breyta frumkóða]

Aðgengilegustu rit um frjálshyggju

[breyta | breyta frumkóða]
  • Bastiat, Frederic: Lögin (til á íslensku, 2001).
  • Hayek, Friedrich A.: The Constitution of Liberty (1961).
  • Hazlitt, Henry: Hagfræði í hnotskurn (til á íslensku, 2000).
  • Locke, John: Ritgerð um ríkisvald (1689, til á íslensku, 1986).
  • Mill, John Stuart: Frelsið (1859, til á íslensku, 1970).
  • Smith, Adam: Auðlegð þjóðanna (1776, fyrri hlutinn til á íslensku, 1997).
  • Nozick, Robert: Anarchy, State, and Utopia (1974).

Íslensk rit

[breyta | breyta frumkóða]
  • Þýdd grein á andriki.is um frjálshyggju 20. aldar
  • Heimasíða Frjálshyggjufélagsins (róttækra og óháðra frjálshyggjumanna)
  • Heimasíða andríkismanna (frjálshyggjumanna í óbeinum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn)
  • Á ensku Wikipediu:
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Liberalism
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Libertarianism
  • „Hvað á John Stuart Mill sameiginlegt með nýfrjálshyggju?“. Vísindavefurinn.